Vinstriflokkarnir bera ábyrgð á þrengingum á húsnæðismarkaði

Forstjóri Íbúðalánasjóðs ræddi húsnæðismál á fundi sem sjóðurinn stóð fyrir á dögunum. Þar kom ýmislegt fróðlegt fram, til að mynda sagði forstjórinn að nú væru fordæmalausir tímar á húsnæðismarkaði, þar sem 9.000 íbúðir vantaði á markaðinn á næstu þremur árum.

Þetta kemur raunar ekki alveg á óvart því að á það hefur verið bent árum saman að mikið hafi vantað upp á það í höfuðborginni að borgaryfirvöld byðu upp á viðunandi fjölda lóða á þeim svæðum sem hagkvæmt er að byggja. Tregða borgaryfirvalda hefur verið slík að þau hafa neitað að skipuleggja byggð utan Elliðaáa en lagt þess í stað alla áherslu á þéttingu byggðar þar sem mest hefur verið byggt fyrir og þar sem dýrast er að byggja. Og þungamiðja skipulagsstefnu borgaryfirvalda er að loka Reykjavíkurflugvelli og byggja í Vatnsmýrinni. Hefur sú stefna orðið til þess að þau hafa neita að leyfa byggð að blómstra fjær 101 þó að sá kostur hefði augljóslega verið hagkvæmari, ekki síst fyrir ungt fólk sem þarf þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði.

Annað sem hefur þrýst upp verði á húsnæði á síðustu árum er byggingareglugerð sem vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri grænna setti árið 2012. Forstjóri Íbúðalánasjóðs benti einmitt á það að þessi byggingareglugerð hefði hækkað byggingakostnað mikið og velti upp þeirri spurningu hvort of langt hefði verið gengið.

Svarið við því er vitaskuld já, vinstristjórnin gekk of langt með byggingareglugerðinni og vinstristjórnin í Reykjavík hefur gengið of langt í að takmarka lóðaframboð. Hvort tveggja hefur verið þeim dýrt sem eru að kaupa íbúð, einkum þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.

Nú stíga vinstriflokkarnir fram, eftir að hafa þrýst upp verði á íbúðarhúsnæði, og segjast ætla að bjarga þeim sem eru í húsnæðisvanda. Helsta lausnin virðist eiga að vera, eftir að hafa eyðilagt húsnæðismarkaðinn, að bjóða upp á niðurgreitt leiguhúsnæði, eða jafnvel að setja þak á leiguverð, sem hvarvetna hefur orðið til þess að rýra gæði leiguhúsnæðis og draga úr framboði þess, að minnsta kosti þess hluta sem ekki er á svarta markaðnum. Og Samfylkingin, sem ber mesta ábyrgð á húsnæðisvandanum í höfuðborginni, vill leysa hann með því að „fyrirframgreiða vaxtabætur“ sem er dæmigerð töfralausn þess sem hefur slæma samvisku í málaflokknum og heldur að fólk falli fyrir gylliboðum rétt fyrir kosningar.

Það sem mikilvægast er í húsnæðismálum er að fólki sé gert kleift að eignast húsnæði á viðunandi verði. Til þess þarf breytta stefnu vinstri meirihlutans í höfuðborginni og til þess þarf líka að vinda ofan af þeim kostnaðarauka sem vinstristjórnin bauð upp á með breytingum á byggingareglugerð. Vandinn verður ekki leystur með frekari aðgerðum stjórnlyndra vinstrimanna sem fara mikinn í atkvæðakaupum fyrir kosningar.