Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@mbl.is
Þess verður ekki langt að bíða að vinstri stjórn taki við. Því miður er ekki hægt að líta til starfa síðustu stjórnar á þeim vængnum í leit að vegvísi um það sem koma skal.
Eftir hrun voru fjárhirslur ríkisins galtómar, skuldir miklar og starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins önduðu ofan í hálsmálið á þeim sem voru við stjórnvölinn. Þeir leyfðu ekki lausatök í ríkisrekstrinum. Ríkisstjórnin var því ekki í aðstöðu til að haga ríkisfjármálunum eins og hún hefði kosið.
Nú er öldin önnur. Fráfarandi ríkisstjórn stefndi að 44 milljarða króna afgangi af ríkissjóði. Ríkissjóður stendur vel í sögulegu ljósi. Bros færist yfir vinstri menn.
Raunar boða sumir stjórnmálaflokkar mun meiri aukningu ríkisútgjalda en sem nemur fyrirhugðum afgangi. Þeir vilja auka ríkisútgjöld árlega um 50 til 75 milljarða króna setjist þeir í ríkisstjórn. Í aðdraganda kosninga hafa vinstri flokkarnir ekki upplýst með trúverðugum hætti hvernig eigi að fjármagna aukin ríkisútgjöld.
Þ að liggur í augum uppi að það þurfi að hækka skatta til að standa undir auknum útgjöldum. Á sama tíma er farið að hægja á hagkerfinu sem leiðir til þess að ríkið mun afla minni skatttekna þegar fram í sækir. Það kallar eflaust á frekari skattahækkanir til að ríkið geti haldið áfram á sömu braut. Þær hækkanir munu hafa það í för með sér að hægist enn frekar á atvinnu lífinu.