[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, lét þau orð falla í leiðtogaumræðum hjá RÚV sunnudaginn 8. október að „skattbyrðin hefur aukist á alla hópa nema tekjuhæstu tíu prósentin“.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, lét þau orð falla í leiðtogaumræðum hjá RÚV sunnudaginn 8. október að „skattbyrðin hefur aukist á alla hópa nema tekjuhæstu tíu prósentin“. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra, sem sagt var frá í Morgunblaðinu á laugardaginn var, hækkaði hlutfall skatta af tekjum einstaklinga í efstu tíundinni úr 19% í 27% á tímabilinu frá 2007 til 2016. Það var mesta hlutfallslega hækkun tíundar. Hafði hlutfall skatta af tekjum hækkað hjá öllum tíundum.

Þegar Katrín var spurð um áðurnefnd ummæli í þætti RÚV kvaðst hún hafa vitnað til nýlegrar skýrslu ASÍ um skattbyrði 1998-2016 og sömuleiðis útreikninga á áhrifum skattastefnu síðustu tveggja ríkisstjórna.

„Skattbyrði allra hópa nema þeirra tekjuhæstu hefur aukist frá 2013. Þetta kemur til dæmis fram í útreikningum fv. ríkisskattstjóra, Indriða H. Þorlákssonar, sem hefur birt útreikninga sína. Forsætisráðherra hefur sagt að það sé mikilvægara að bera saman kaupmátt. Þarna er auðvitað verið að bera saman ólík tímabil,“ segir Katrín og vísar til umfjöllunar Morgunblaðsins og greiningar Indriða.

Geri kerfið réttlátara

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að vísbendingar væru um að farið væri að hægja á hagkerfinu. Spurð um það sjónarmið að ekki sé heppilegt að auka álögur við slíkar aðstæður segir Katrín það „hárrétt athugað“.

„Við teljum að það sé svigrúm til að sækja auknar arðgreiðslur inn í bankana til að greiða niður skuldir eða fara í nýstofnframkvæmdir. Þar er gríðarleg uppsöfnuð þörf. Nægir þar að nefna vegakerfið. Við teljum líka að það séu tækifæri til að gera betur í því að taka á skattaundanskotum. Þannig að við teljum að það séu ýmsir tekjustofnar sem ekki fela í sér auknar álögur á almennt launafólk. Ef farið verður í skattkerfisbreytingar snúast þær frekar um að gera skattkerfið réttlátara. Þannig að breytingarnar leggist þá ekki á millitekjuhópa og lágtekjuhópa og að frekar sé leitað til þeirra allra efnuðustu í samfélaginu.“

Þriðja þrepið 3% af heildinni

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að þriðja skattþrepið hefði skilað 3% alls tekjuskatts á einstaklinga í fyrra en milliþrepið 3,3%. Fyrsta þrepið skilaði 93,6% skattsins. Milliþrepið var afnumið í ársbyrjun.

Þá var fjallað um áhrif skattahækkana á hátekjuhópa í Fréttablaðinu í gær. Þar var birt greining á gögnum Hagstofunnar. Kom þar fram að 946 einstaklingar hafa 25 milljónir eða meira í árstekjur. Ef lagður yrði 48-76% hátekjuskattur á þennan hóp myndi það skila 159 milljónum til 2,7 milljörðum í auknar skatttekjur en auðlegðarskattur á eign umfram 150 milljónir skila 5,1-10,2 milljörðum aukalega á ári.

Ekki risavaxinn tekjustofn

Fram hefur komið að VG vill hækka skatta á þá sem hafa 25 milljónir eða meira í laun á ári og jafnframt taka upp auðlegðarskatt.

Spurð um niðurstöðu þessarar greiningar á áhrifum hátekjuskatts segir Katrín „alla sjá að þetta sé ekki risavaxinn tekjustofn“. Til viðbótar horfi VG til 1% auðlegðarskatts á miklar eignir og hærri fjármagnstekjuskatts á stóreignafólk.

Varðandi veiðigjöld segir Katrín þau hafa lækkað stórlega í tíð núverandi ríkisstjórnar. Samkvæmt áætlun með fjárlagafrumvarpi 2018 munu gjöldin aukast úr 6,4 milljörðum í ár í 10 milljarða á næsta ári. Spurð hvort VG vilji t.d. hækka veiðigjöld í 20 milljarða segir Katrín ekki rætt um svo mikla hækkun. Hún nefnir hins vegar ekki tiltekna upphæð í þessu samhengi.

Spurð hvað VG telji að auka þurfi ríkisútgjöld mikið til að fylgja stefnu flokksins nefnir Katrín 30-40 milljarða. Hún leggur áherslu á að VG sé hvorki að leggja fram „ófrávíkjanlegt plan um skattprósentur né útgjöld“. Ef VG muni eiga aðild að ríkisstjórn muni koma til málamiðlana. „Við erum að tala um arðgreiðslur úr fjármálafyrirtækjum, sem gætu numið tugum milljarða á næsta kjörtímabili. Við erum að tala um auðlindarentuna. Þetta eru ekki tillögur um skattahækkanir. Þetta eru tillögur um hvernig má styrkja tekjugrunn ríkissjóðs.“

Komugjald skili 2 milljörðum

Hún bendir á að fráfarandi ríkisstjórn hafi lagt til 18 milljarða skattahækkun á ferðaþjónustuna. Vingri græn séu andvíg þeirri leið en leggi til komugjöld. Til dæmis geti þúsund króna gjald á ferseðil skilað um 2 milljörðum króna á ári, miðað við 2 milljónir erlendra gesta.

Skatttekjurnar muni aukast

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, situr í fjárlaganefnd Alþingis. Hún lagði fyrr á árinu fram breytingartillögu við tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022. Þar var gert ráð fyrir viðbótartekjum ríkissjóðs, með ýmsum skatt- og eignartekjum, upp á 53,4 milljarða á næsta ári og svo stighækkandi upp í 75,4 milljarða 2022. Á sama tímabili skyldu ýmis útgjöld aukin um 42 milljarða 2018 og svo upp í 70,3 milljarða árið 2022.

Katrín sagði þetta fyrri áætlun.