Stopp Ferðabann Donalds Trump enn og aftur stöðvað af dómara.
Stopp Ferðabann Donalds Trump enn og aftur stöðvað af dómara. — AFP
Alríkisdómararnir Derrick K. Watson á Hawaii og Theodore D. Chuang í Maryland hafa báðir staðfest lögbann á þriðju tilraun ríkisstjórnar Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, til að koma á ferðabanni íbúa sjö múslímaríkja til Bandaríkjanna.

Alríkisdómararnir Derrick K. Watson á Hawaii og Theodore D. Chuang í Maryland hafa báðir staðfest lögbann á þriðju tilraun ríkisstjórnar Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, til að koma á ferðabanni íbúa sjö múslímaríkja til Bandaríkjanna.

Tilskipun forsetans, sem taka átti gildi í dag, er sú harðasta til þessa, en ólíkt fyrri tilskipunum er kváðu á um 90 daga ferðabann er bannið ótímabundið í þessari nýjustu og þriðju tilraun forsetans til að koma á ferðabanni. Í rökstuðningi sínum segir Watson að bannið eigi eftir að reynast Bandaríkjunum skaðlegt, en íbúafjöldi landanna sjö er 150 milljónir. Þar að auki telur hann að forsetinn hafi ekki vald til þess að banna fólki að koma til landsins. Vísar Watson þar til þess að forsetinn sé að fara út fyrir þau valdmörk sem bandaríska þingið hefur heimilað honum. Engu að síður setur Watson ekki út á ferðabann íbúa Norður-Kóreu til Bandaríkjanna.

Það liggur því ljóst fyrir að stjórnvöld í Washington munu þurfa að leita að nýju til hæstaréttar Bandaríkjanna til að fá úr því skorið hvort tilskipun forsetans standist lög.

Löndin sem falla undir ferðabann Trump eru Sýrland, Líbía, Íran, Jemen, Tsjad, Sómalía, Norður-Kórea og Venesúela.

Pólitískir andstæðingar Trumps segja ferðabanninu beint gegn múslímum en sjálfur segir forsetinn að bannið snúi að löndum þar sem pólitískt ástand sé óstöðugt og hætta sé á að meðlimir hryðjuverkasamtaka reyni að komast til Bandaríkjanna í gegnum þau lönd.