Skýrari merki má nú sjá um aukinn vöxt skulda heimila og fyrirtækja. Litið til fyrstu tveggja fjórðunga ársins mælist í fyrsta skipti frá hruni meiri hækkun í skuldum en landsframleiðslu. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki, sem Seðlabankinn birti í gær.
Vöxtur gengis- og verðlagsleiðréttra skulda mældist 4,7% á ársgrundvelli í lok annars ársfjórðungs; 2,2% hjá heimilum en 7,2% hjá fyrirtækjum.
Skuldsetning fyrirtækja er enn sögulega lítil og eiginfjárstaða þeirra almennt góð. „Hlutfall skulda einkageirans af landsframleiðslu hefur lækkað hratt á síðustu árum en síðustu fjóra ársfjórðunga hefur það haldist nánast stöðugt. Þróun gengis íslensku krónunnar á liðnu ári hefur mikil áhrif á þróun skulda og þá sérstaklega fyrirtækja en rúm 34% skulda þeirra eru tengd erlendum gjaldmiðlum,“ segir í Fjármálastöðugleika. Af þeim sökum var litið til gengis- og verðslagsleiðréttra skulda að ofan.
Útlánavöxtur ferðaþjónustu
Útlán til ferðaþjónustu nema tæplega 17% af heildarútlánum stóru viðskiptabankanna til fyrirtækja og hafa nú náð ámóta vægi og útlán til sjávarútvegs. Ársvöxtur útlána til ferðaþjónustu mældist 23% frá júlí 2016 til júní 2017.„Að nokkru leyti kann útlánaaukningin að endurspegla nákvæmari skráningu,“ segir í Fjármálastöðugleika. Útlán til greinarinnar nema um 9% af heildarútlánum bankanna til viðskiptavina. „Útlán til ferðaþjónustu vega því nokkuð í bókum viðskiptabankanna og útlánaáhætta þeim tengd gæti verið hlutfallslega meiri en sem nemur vægi þeirra,“ segja skýrsluhöfundar.
Skuggabankakerfið hefur fjármagnað vöxtinn
Samhliða hægari vexti í ferðaþjónustu gætu fyrirtækin í greininni sameinast í meiri mæli. Slíkir samrunar kalla oft á aukið lánsfé. „Hingað til hefur vöxtur greinarinnar að hluta til verið fjármagnaður utan bankakerfisins, af einstaka fagfjárfestasjóðum eða með stofnun samlagshlutafélaga um einstaka fjárfestingu. Með færri og stærri aðilum í greininni kann mótaðilaáhætta bankanna að aukast,“ segir í ritinu.Í fjárfestingarkönnun Seðlabankans, sem framkvæmd var fyrr á árinu, kemur fram að hlutfall þeirrar atvinnuvegafjárfestingar á árinu 2016 sem fjármögnuð var með lánsfé hafi verið um 40% og að fyrirtækin búist við svipuðu hlutfalli í ár. Þetta er nokkur hækkun frá fyrri árum.
Eins og þekkt er hefur leigjendum fjölgað á íbúðamarkaði. Fleiri íbúðir eru nú í eigu fasteignafélaga en áður og ætla má að ákveðin tilfærsla á íbúðaskuldum hafi átt sér stað frá einstaklingum og yfir á fasteignafélög. Skýrir það, að mati skýrsluhöfunda, að hluta til aukinn skuldavöxt fyrirtækja umfram heimili.