Hrollvekja Bókin The Crawling King segir sögu borgar sem eitt sinn var en er nú lítið annað en rústir einar. Einar brenndi hluta síðnanna og fór yfir þær með kaffi til að ljá þeim áferð gamalla handrita.
Hrollvekja Bókin The Crawling King segir sögu borgar sem eitt sinn var en er nú lítið annað en rústir einar. Einar brenndi hluta síðnanna og fór yfir þær með kaffi til að ljá þeim áferð gamalla handrita.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listamaðurinn Einar Baldvin er margverðlaunaður fyrir verk sitt The Pride of Strathmoor. Núna er í prentun bók hans The Crawling King, en hann hefur þegar selt 1.600 eintök og safnað 12 milljónum fyrir útgáfunni á Kickstarter.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Alinn upp í vesturbæ Reykjavíkur en leitaði ungur á vit ævintýranna hefur listamaðurinn Einar Baldvin skapað sér sérstöðu í listsköpun sinni og vakið athygli um allan heim.

„Ég er bæði fæddur og alinn upp í Vesturbænum en þurfit að kveðja heimaslóðirnar árið 2005,“ segir Einar nokkuð hugsi líkt og hann sé að rifja upp gamlar minningar af heimaslóðunum en bætir svo við að dvölin í Bandaríkjunum hafi verið góð.

„Ég flutti til Bandaríkjanna til að læra hreyfimyndagerð við CalArts og tók síðan master í sama fagi við University of Southern California.“

Ýmislegt hefur á daga hans drifið en af margvíslegum verkefnum hans verður ekki hjá því komist að spyrja hann um stuttmyndina The Pride of Strathmoor .

„Já, ætli það beri ekki helst að nefna hana af því sem ég hef gert hingað til. The Pride of Strathmoor er teiknuð stuttmynd eftir mig sjálfan og hefur farið í sýningu um allan heim og unnið til fjölda verðlauna.“

Hin forna hrollvekja

Listamaðurinn situr aldrei auðum höndum og nú bíða margir spenntir eftir nýjasta sköpunarverki Einars, The Crawling King. Um er að ræða 200 blaðsíðna ævintýrabók í hrollvekjustíl.

„Ég er mjög spenntur fyrir útgáfunni sjálfur en bókin er handskrifað og myndskreytt safn af hrollvekjum sem gerast allar í sömu borg, Gyldenbrae, og nágrenni hennar,“ segir Einar og bætir því við að sögurnar fjalli allar á einn eða annan hátt um dularfulla eyðileggingu borgarinnar. „Þetta er hugsað eins og safn ævintýra, þjóðsagna, bréfa, málverka og teikninga úr ímynduðum heimi.“

Vinnan á bak við verkið hefur verið gífurleg en meðal þess sem Einar hefur gert er að setja handrit bókarinnar upp með slíkum hætti að ætla mætti að hún hefði fundist í heiðinni gröf eða fornu bókasafni.

„Mikið rétt,“ segir hann og brosir. „Ég brenndi hluta síðanna og fór líka yfir þær með kaffi til að gefa þeim áferð gamalla handrita. Hugmyndin er nefnilega sú að láta hverja síðu virðast vera hluti af fornu handriti.“

Óskarinn, Amazon og Einar

Á bak við útgáfu Einars Baldvins á The Crawling King er fyrirtækið Starburns Industries studio en það hlaut óskarstilnefningu fyrir myndina Anomalisa og gefur út teiknimyndaseríuna vinsælu Rick and Morty .

„Ákveðið var að fara með bókina í forsölu á Kickstarter og það gekk framar okkar björtustu vonum,“ segir Einar en þar safnaði hann rúmlega 12 milljónum króna og er búinn að selja rúmlega sextán hundruð bækur.

„Það má með sanni segja að fyrstu viðbrögð hafi verið góð. Þetta er þrefalt meira en við þurftum til að prenta fyrsta upplag.“

Bókin er komin í prentun en ætlunin er að hún komi í verslanir fyrir jól.

„Prentarinn er að meðhöndla hana núna en mig langar að koma henni út fyrir jólin og geri fastlega ráð fyrir því að hún verði komin í almenna sölu fyrir hátíðarnar.“

Spurður hvar aðdáendur hans geti nálagst bókina segir Einar Baldvin að hún verði til sölu í bókabúðum í Bandaríkjunum en líka á Amazon, þar sem hægt verður að senda hana til lesenda hvar í heiminum sem þeir eru niðurkomnir.

„Mig langar líka að koma bókinni í sölu á Íslandi þannig að fólk geti handfjatlað hana og skoðað með öðrum hætti en á Amazon.“

Stórt verkefni fram undan

Eitt verkefni tekur við af öðru og segist Einar Baldvin nú vinna að frekar stóru verkefni sem hann getur ekki tjáð sig um að svo stöddu.

„Já því miður, ég get ekki tjáð mig um það á þessu stigi en ég get sagt þér að þetta er nokkuð sem ég er búinn að reyna að koma í gang í nokkur ár og virðist loks vera að smella saman,“ segir hann og er augljóslega spenntur fyrir því sem fram undan er.

„Síðan er fólk strax byrjað að spyrja mig um framhaldið á The Crawling King þó svo það hafi ekki einu sinni lesið þessa bók ennþá! Ég er því aðeins farinn að huga að framhaldinu.“

Úr rótgrónu og sögulegu hverfi í Reykjavík má segja að Einar Baldvin sé kominn vel á veg í vegferð sinni til stjarnanna í menningar- og listaheimi Bandaríkjanna eða eins og hann myndi kannski orða það í ævintýrum sínum: Per ardua ad astra.