Miðflokkur Sigmundar Davíðs vill að ríkið nýti forkaupsrétt á Arion banka.
Miðflokkur Sigmundar Davíðs vill að ríkið nýti forkaupsrétt á Arion banka. — Morgunblaðið/Eggert
Fjármálastofnanir „Ef ríkið leysir Arion banka til sín greiðir það sjálfu sér megnið af fjárhæðinni,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við ViðskiptaMoggann.

Fjármálastofnanir

„Ef ríkið leysir Arion banka til sín greiðir það sjálfu sér megnið af fjárhæðinni,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við ViðskiptaMoggann.

Á meðal stefnumála Miðflokksins er að ríkið nýti forkaupsrétt að Arion banka. Ríkið myndi afhenda landsmönnum þriðjung í bankanum, selja þriðjung í opnu útboði og halda eftir þriðjungi þar til markaður hefur myndast með bréfin. Það gæfi ríkinu tækifæri til þess að endurskipuleggja fjármálakerfið og minnka eignir bankanna með arðgreiðslum til að fjármagna uppbyggingu.

Paul Copley, forstjóri Kaupþings, sagði í opnuviðtali við ViðskiptaMoggann í ágúst, að í kringum 70% af söluandvirði bankans muni renna til ríkisins sem hluti af stöðugleikaskilyrðum.

Sigmundur Davíð segir að ákvæði um kauprétt verði virkt ef hlutur í bankanum er seldur á genginu 0,8 eða lægra miðað við eigið fé. „Verðmætin sem liggja í bankanum eru mun meiri,“ segir hann. „Svo er hin leiðin fær, að ríkið einfaldlega leysi bankann til sín í samræmi við annað ákvæði í uppgjöri slitabúanna. Það var þess eðlis að ef ekki væri búið að selja bankann á árinu 2018 hefði ríkið rétt á að leysa hann til sín,“ segir Sigmundur Davíð. Ríkið á 13% hlut í Arion, Kaupskil 57,4% og vogunarsjóðir eiga tæplega 30%. Ef hlutur Kaupskila er metinn á 80% af bókfærðu eigin fé færi hann á 127 milljarða króna. Ríkið fengi 89 milljarða króna til baka og þyrfti því að reiða fram 38 milljarða króna fyrir hlutinn.

Sigmundur Davíð telur að kaup vogunarsjóðanna á tæplega 30% hlut eigi að ganga til baka vegna þess að kaupverðið var undir verðinu sem virkjar forkaupsréttinn miðað við síðasta gilda uppgjör bankans. helgivifill@mbl.is