Nýtt skip Björgúlfur EA kom til heimahafnar á Dalvík í fyrsta skipti fyrr á árinu. Þorsteinn segir að frekari fjárfestinga sé þörf í sjávarútvegi hér á landi.
Nýtt skip Björgúlfur EA kom til heimahafnar á Dalvík í fyrsta skipti fyrr á árinu. Þorsteinn segir að frekari fjárfestinga sé þörf í sjávarútvegi hér á landi. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skúli Halldórsson sh@mbl.is Íslenskir útflytjendur sjávarafurða þurfa að borga helmingi meira til að koma fiski á markað í Evrópu en kollegar þeirra í Noregi.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Íslenskir útflytjendur sjávarafurða þurfa að borga helmingi meira til að koma fiski á markað í Evrópu en kollegar þeirra í Noregi. Þetta kom fram í máli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, á ráðstefnunni Sjávarútvegsdeginum sem fram fór í Hörpu á þriðjudag, en fyrir henni stóðu Deloitte, Samtök atvinnulífsins og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

„Ættu að vera þúsund manns“

Erindi Þorsteins bar heitið „Enginn er eyland. Hvar stöndum við?“ og hóf hann mál sitt á menntun ungra Íslendinga. Sagðist hann vilja sjá miklu fleiri í skipstjórnar- og vélstjórnarnámi í Tækniskólanum.

„Þarna ættu að vera þúsund manns. Við Íslendingar ættum að stjórna stærstu skipum í heimi,“ sagði hann og bætti við að um allan heim væri að finna mörg spennandi tækifæri fyrir fólk sem menntaði sig í þessum greinum.

Í þessu tilliti bar hann saman niðurstöður myndaleitar hjá Google þegar slegin eru inn orðin „flug“, „upplýsingatækni“ og „sjávarútvegur“. Við viðstöddum blöstu myndir af glæsilegum flugvélum á flugi, flottar og nýjar tölvur, og loks kældur fiskur í körum. Sagði hann augljóst að þessar niðurstöður gæfu ekki rétta mynd af þeim möguleikum sem sjávarútvegur byði upp á.

Þá greindi hann frá niðurstöðum nýlegrar könnunar meðal ungmenna, þar sem 25% svarenda sögðust telja sjávarútveginn mikilvægustu atvinnugreinina, en aðeins þrjú prósent aðspurðra vildu mennta sig í greininni og eitt prósent sagðist vilja starfa í geiranum. Sagði Þorsteinn að samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar vildu ungmenni helst starfa við alþjóðaviðskipti.

„Og hvað eru alþjóðaviðskipti? Árið 2016 seldi Samherji fisk til 55 landa,“ bætti hann við og benti á að síðustu viku septembermánaðar og fyrstu vikuna í október hefði Samherji sent fisk til 22 áfangastaða um borð í 137 mismunandi flugvélum.

„Þetta lýsir því hvar við stöndum hvað varðar alþjóðaviðskipti.“

Hátt laxverð vegna stöðugleika

Vék Þorsteinn þá máli sínu að því sem hann sagðist telja mikilvægast fyrir útflytjendur í sjávarútvegi að hafa í huga, við sífellt harðnandi samkeppni á erlendum mörkuðum.

„Það er fyrst og fremst trúverðugleikinn, að fólk geti treyst okkur, en svo er hið svokallaða afhendingaröryggi. Menn gera kröfur um stöðugt verðlag, stöðug gæði, að matvælaöryggið sé í lagi, og loks vilja þeir vinna með einhverjum sem er sífellt að þróa sitt vöruframboð.“

Tók hann sem dæmi laxverð, sem verið hefði allt að þrisvar sinnum hærra en þorskverð síðustu misseri.

„Af hverju er laxinn svona hár? Það er út af stöðugleikanum, það er fyrirséð hvað verðið er, og afhendingaröryggið er allt að því 100%. Með því að líta á verðið kemur í ljós hvaða áhrif þessir þættir hafa,“ sagði hann og benti á að þetta væru kostir fiskeldis í Noregi.

„Það er oft verið að tala um að það sé nauðsynlegt að slíta í sundur veiðar og vinnslu. En þarna er þetta aftur á móti á einni hendi, og það er það sem menn eru að borga fyrir.“

Í því sambandi nefndi hann að norska fyrirtækið Marine Harvest, sem sérhæfir sig í laxeldi, velti um helmingi meira en allur íslenskur sjávarútvegur. Fiskeldisfyrirtækið Bakkafrost í Færeyjum hefði þá nýlega sameinað sjö verksmiðjur í eina, sem væri í nýju tuttugu þúsund fermetra húsnæði.

„Viðskiptavinirnir eru sífellt að verða stærri og stærri. Innkaupadeildirnar þeirra eru hins vegar ekki stórar og vilja ekki versla við marga,“ sagði Þorsteinn og benti á að það tæki sólarhring að keyra með ferskan fisk frá Noregi til Póllands, og einn og hálfan til tvo sólarhringa frá Noregi til Frakklands.

„Við erum á kletti úti í ballarhafi. Það er helmingi dýrara fyrir okkur að koma fiski á markað í Evrópu. Og alveg eins til Asíu. Það kostar jafn mikið að flytja fisk frá Íslandi til Evrópu og frá Evrópu til Kína,“ bætti hann við. Þá væri enn fremur ódýrara að fljúga með fisk frá Noregi til Bandaríkjanna.

Ekki eins og í ferðaþjónustunni

Að lokum ræddi Þorsteinn um krefjandi aðstæður sjávarútvegsfyrirtækja í umhverfi mikillar gjaldtöku og í kjölfar styrkingar krónunnar. Laun í fiskvinnslu Samherja hefðu þannig hækkað um 44% á aðeins fimm árum, frá árinu 2012. Mælt í norskum krónum hefðu þau hækkað um 130%.

„En við gerum ekki eins og í ferðaþjónustunni, við hækkum ekki bara og hækkum verð,“ sagði hann og tók enn fremur dæmi um ósanngjarna gjaldtöku:

„Stóru skemmtiferðaskipin sem sigla innan lögsögunnar og koma hér að landi, þau taka ekki olíu og þurfa því ekki að borga gjaldið. Íslensku flutningaskipin taka líka olíu annars staðar,“ sagði hann og fullyrti að þetta væri ójafn leikur, á sama tíma og kolefnisgjaldið væri fjórum sinnum hærra en í Noregi.

66 milljóna króna gjaldtaka

Þorsteinn tók annað dæmi um háa gjaldtöku, en Samherji seldi nýlega skip sitt Kristínu EA til rússneskrar útgerðar.

„Til þess þurfti að fara til fógeta og reiða af hendi 66 milljónir króna, fyrir það eitt að þurrka út eitt skip í skipaskrá. Þetta finnst hvergi nokkurs staðar í heiminum. Svo ef við kaupum annað skip eru það aðrar 66 milljónir.“

Þá sagðist hann taka fyrir þá fullyrðingu sem hann sagðist hafa heyrt frá einum frambjóðanda í yfirstandandi kosningabaráttu, um að aðeins eitt prósent af tekjum ríkisins kæmi frá sjávarútvegi

„Það er alltaf verið að tala um að við borgum ekkert, sköpum ekkert, leggjum ekkert til.“ Sagðist hann svo telja að skattspor þriggja stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna hér á landi væri um 20 milljarðar króna, og að samkvæmt útreikningum rynnu 53% tekna í launakostnað og opinber gjöld.

„Í Noregi nema laun og sömu gjöld 32 prósentum. Menn geta farið út um allan heim, það er hvergi hliðstæða.“

Og þrátt fyrir fjárfestingar í nýjum skipum að undanförnu sagði hann ekkert efni til frekari gjaldtöku af hálfu ríkisins. „Við þurfum að fjárfesta enn meira ef við ætlum okkur að vera í fremstu röð.“