Einhverra hluta vegna er hrekkjavakan orðin meiriháttar hátíð hér á landi og fyllast nú allar verslanir af risastórum graskerum sem landsmenn þekkja bara úr bíómyndum og hafa ekki hugmynd um hvað þeir eiga að gera við. En örvæntið eigi. Það er minna mál en þið haldið að skera út eitt svona kvikindi og hér er aðferðin – skref fyrir skref! Við hvetjum ykkur jafnframt til að prófa því graskerin eru gríðalega mikil prýði og fyrst við erum hvort eð er í ruglinu er alveg eins gott að fara alla leið.
Hrekkjavökugrasker
pappírspoki
góður tússpenni
góður hnífur
góð ausa
góður snyrtihnífur (til að snyrta skurðinn)
tvær stórar skálar (önnur fyrir fræ, hin fyrir innvolsið)
viskustykki
sprittkerti og langur kveikjari
1. Búðu til gott vinnurými: Þektu rýmið með pokum eða dagblöðum og hafðu öll áhöld tilbúin.
2. Teiknað á graskerið: Finndu bestu hliðina og teiknaðu síðan andlitið á graskerið.
3. Teiknaðu lokið: Gerðu stóran hring í kringum stilkinn.
4. Skerðu lokið af: Oft er gert ráð fyrir að fólk eigi úrval af hnífum en hér getur hefðbundinn dúkahnífur komið að góðum notum. Passið upp á að það sé halli á lokinu þannig að það detti ekki ofan í graskerið.
5. Fjarlægðu fræin: Fræin eru föst saman og reyndu að ná þeim þannig upp úr og settu í skál. Þú skolar þau síðar.
6. Mokaðu upp innihaldinu: Nú þarf að tæma graskerið almennilega og til þess er best að nota ausu.
7. Þurrkaðu graskerið: Notaðu eldhúspappír eða viskustykki til þess. Það er mun öruggara að skera grasker sem er þurrt og fínt.
8. Skerðu út: Vandaðu þig en ekki þó svo mjög að þetta taki marga klukkutíma. Settu útskurðinn í skálina með innvolsinu.
9. Snyrtu skurðinn: Hér er gott að nota útskurðarhníf ef slíkur er til. Hér ertu að snyrta skurðinn og það skiptir í alvörunni miklu máli að þetta sé sæmilega vel gert.
10. Settu kerti í graskerið: Nú er það tilbúið og þú getur dáðst að herlegheitunum. Mundu að snjallt er að nota graskersfræin og þá mælum við með því að þau séu skoluð og síðan ristuð á pönnu. thora@mbl.is