Argentínski töframaðurinn Lionel Messi náði þeim áfanga í gærkvöld að skora sitt 100. mark í Evrópukeppninni þegar hann skoraði eitt af mörkum Barcelona í 3:1 sigri gegn Olympiacos í Meistaradeildinni.

Argentínski töframaðurinn Lionel Messi náði þeim áfanga í gærkvöld að skora sitt 100. mark í Evrópukeppninni þegar hann skoraði eitt af mörkum Barcelona í 3:1 sigri gegn Olympiacos í Meistaradeildinni. Messi skoraði markið með skoti beint úr aukaspyrnu og Börsungar eru á góðri leið með að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum. Þeir eru með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Það breytti litlu fyrir Katalóníuliðið að leika manni færri í 50 mínútur en Gerard Pique var sendur af velli þegar hann fékk sitt annað gula spjald á 41. mínútu leiksins.

Juventus er þremur stigum á eftir Barcelona en eftir að hafa lent 1:0 undir gegn Sporting á heimavelli tókst Ítalíumeisturunum að landa 2:1 sigri þar sem króatíski landsliðsmaðurinn Mario Mandzukic skoraði sigurmarkið 5 mínútum fyrir leikslok.

Mikið fjör var á Stamford Bridge í Lundúnum þar sem Chelsea og Roma skildu jöfn, 3:3, í frábærum fótboltaleik. Chelsea komst í 2:0 með mörkum frá David Luiz og Eden Hazard en Roma svaraði með þremur mörkum. Aleksander Kolarov minnkaði muninn og Edin Zeko kom Rómverjum í 3:2 áður en Hazard jafnaði metin fyrir Englandsmeistarana.

Marcus Rashford tryggði Manchester United 1:0 sigur gegn Benfica í Lissabon í Portúgal. Markið skrifast þó algjörlega á hinn 18 ára gamla markvörð Benfica sem í gær varð yngsti markvörðurinn til að koma við sögu í Meistaradeildinni. Honum urðu á slæm mistök. Fyrirgjöf frá Rashford fór beint í fangið á markverðinum sem hreinlega labbaði með boltann í fanginu inn fyrir marklínuna. United er í vænlegri stöðu en liðið hefur unnið alla þrjá leiki sína. gummih@mbl.is