Guðbrandur Sigurðsson hefði gaman af að læra sálfræði til að vera lunknari í samskiptum. „Öll viðskipti og rekstur fyrirtækja byggjast að stórum hluta á samskiptum fólks. Rétt samskipti eru lykillinn að árangri.“
— Morgunblaðið/Eggert
Heimavellir urðu til árið 2014 með sameiningu þriggja leigufélaga. Síðan þá hefur fyrirtækið vaxið hratt og er nú með 2.000 íbúðir í rekstri í öllum landsfjórðungum, en þó mest í höfuðborginni.
Heimavellir urðu til árið 2014 með sameiningu þriggja leigufélaga. Síðan þá hefur fyrirtækið vaxið hratt og er nú með 2.000 íbúðir í rekstri í öllum landsfjórðungum, en þó mest í höfuðborginni. Undir stjórn Guðbrands Sigurðssonar hefur verið unnið að því að skrá félagið á markað.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Helsta áskorun okkar hjá Heimavöllum hefur verið að byggja upp innviði félagsins samhliða örum vexti og að undirbúa félagið fyrir skráningu á markað. Þessi verkefni hafa gengið vel og vorum við búin að undirbúa skráningu þegar blásið var til kosninga nýlega, sem hefði orðið á svipuðum tíma og skráningin. Það þótti slæmur tími fyrir okkur og því var tekin ákvörðun um að seinka skráningu félagsins til næsta árs.
Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?
Það var kynningarfundur á vegum Reykjavíkurborgar þar sem Dagur B. Eggertsson kynnti þau íbúðaverkefni sem eru í farvatninu í borginni. Þetta var góður og áhugaverður fundur. Framkvæmdir eru hafnar á 3.100 íbúðum auk þess sem fyrir liggur samþykkt deiliskipulag á 4.000 íbúðum til viðbótar. Þetta eru góðar fréttir fyrir fasteignamarkaðinn þar sem hefur verið skortur á íbúðum undanfarið eins og allir þekkja.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Ein fyrsta bókin sem ég las um viðskipti hét
Up the Organisation
eftir Robert Townsend. Í bókinni segir hann m.a. frá því þegar hann byggði upp bílaleiguna Avis sem var þekkt fyrir slagorð sitt „We try harder“. Peter sem var farsæll stjórnandi lagði áherslu á að viðhalda einfaldleikanum, sérstaklega varðandi skipulag fyrirtækja, og var þeirrar skoðunar að allt starfsfólk þyrfti að hafa svigrúm og fá að axla eðlilega ábyrgð vegna starfa sinna.
Hver myndi leika þig í kvikmynd um líf þitt og afrek?
Ólafur Darri, ekki spurning.
Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?
Ég reyni að fylgjast vel með því helsta sem er að gerast á sviði viðskipta og tækninýjunga með lestri tímarita og bóka. Undanfarin ár hef ég líka tekið að mér kennslu sem mér finnst líka góð leið til að rifja upp og viðhalda þekkingunni.
Hugsarðu vel um líkamann?
Ég mæti reglulega í leikfimi hjá Gauta Grétarssyni vestur í bæ en utan þess held ég mér í formi með gönguferðum og að spila golf.
Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Ég held að ég myndi bæta við mig gráðu í sálfræði. Öll viðskipti og rekstur fyrirtækja byggjast að stórum hluta á samskiptum fólks. Rétt samskipti eru lykillinn að árangri. Ýmislegt hefur maður lært í gegnum árin en ég væri alveg til í að bæta við mig þekkingu á þessu sviði.
Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?
Núverandi rekstrarumhverfi á Íslandi er á margan hátt mjög gott. Það er góð eftispurn, kaupmáttur er mikill og þjóðfélagið er í vexti. Það sem vantar helst upp á er meiri pólitískur stöðugleiki auk þess sem ég tel að eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna sé að finna leiðir til að lækka vaxtastigið í landinu.
Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?
Góður svefn er lykillinn að hvoru tveggja.
Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?
Ég myndi afnema stimpilgjöld.