Í dag, 19. október, eru þrjátíu ár frá því að jarðskjálfti gekk yfir hinn alþjóðlega fjármálamarkað. Þann dag varð gríðarlegt verðfall í kauphöllinni í New York.

Í dag, 19. október, eru þrjátíu ár frá því að jarðskjálfti gekk yfir hinn alþjóðlega fjármálamarkað. Þann dag varð gríðarlegt verðfall í kauphöllinni í New York. Lækkaði Dow Jones-vísitalan um 23% og hrísluðust áhrif lækkunarinnar um markaði víðs vegar um heiminn. Þannig lækkuðu helstu vísitölur kauphallanna í London, París, Frankfurt og Tókýó um 10%.

Er þetta mesta verðfall sem orðið hefur á verðbréfamörkuðum vestanhafs á einum degi og horfðu eigendur hlutabréfa í IBM m.a. upp á virði félagsins hrapa um 31,25%.

Mánuðina í aðdraganda svarta mánudagsins höfðu hlutabréf hækkað skarpt á meðan skuldabréfamarkaðurinn horfði upp á öfuga þróun. Mikil hreyfing var á markaðnum og þennan tiltekna dag spannst upp örvænting á markaðnum og hafði það hin alvarlegu áhrif í för með sér.

Mönnum var ekki rótt eftir hin miklu hjaðningavíg á verðbréfamörkuðum og flutti Morgunblaðið stóra frétt af málinu á forsíðu að morgni 20. október. Þar var rætt við Jóhannes Nordal seðlabankastjóra sem sagði hættu á frekari áhrifum verðfallsins.

„Mesta hættan er sú keðjuverkun, sem verðlækkunin gæti haft í för með sér fyrir fjárhag þeirra aðila, sem hafa fest mikið fé í þessum markaði,“ sagði Jóhannes og bætti við: „Keðjuverkunin gæti haldið áfram í gegnum allt kerfið og það myndu peningayfirvöld fyrst og fremst reyna að stöðva. Það þýðir að þau verða meðal annars að dæla minni peningum inn í fjármagnskerfið og ná vöxtum niður. Þarna eru gífurlegir fjármunir að veði og það tapa margir miklu.“