Þór Akureyri
Andri Yrkill Valsson
yrkill@mbl.is
Óhætt er að segja að körfuknattleikslið Þórs frá Akureyri hafi gengið í gegnum tímana tvenna síðastliðna áratugi. Frá upphafi hefur verið reynt að byggja sem mest á heimamönnum sem koma upp yngri flokkana og hefur uppgangurinn því komið nokkuð í bylgjum. Þess á milli hefur fallið stundum verið hátt, en Þórsarar eru þekktir fyrir að halda alltaf ótrauðir áfram og byrja að byggja upp á ný þegar á móti blæs. Nú er liðið á öðru tímabili sínu í efstu deild eftir nokkra fjarveru þar áður, en uppgangur Þórs hefur verið hraður síðustu ár.
Veturinn 2014-2015 hafnaði Þór í neðsta sæti 1. deildar, vann aðeins einn sigur og hélt aðeins sæti sínu þar sem fjölgað var um lið í deildinni. Metnaðurinn til að gera betur var hins vegar mikill og eftir tímabilið var Benedikt Guðmundsson, einn fremsti körfuknattleiksþjálfari landsins, ráðinn þjálfari bæði karla- og kvennaliðs félagsins.
„Ég set stefnuna á efstu deild sem allra fyrst. Hvort það tekst á fyrsta ári verður bara að koma í ljós en maður horfir á að ná því á öðru ári, ekki seinna,“ sagði Benedikt við Morgunblaðið eftir ráðninguna vorið 2015, en óhætt er að segja að áætlunin hafi gengið eftir. Strax á fyrsta tímabili Benedikts vann Þór 1. deildina og tryggði sér sæti í efstu deild á ný eftir sjö ára fjarveru.
Í fyrra voru Þórsarar því nýliðar í efstu deild á öðru tímabili Benedikts með liðið. Strax var búist við miklu og var liðinu meðal annars spáð sæti í úrslitakeppninni fyrir tímabilið. Það gekk eftir þar sem Þór hafnaði í 8. sæti deildarinnar en tapaði svo fyrir deildar- og verðandi Íslandsmeisturum KR í átta liða úrslitunum síðasta vor. Árangurinn var góður og héldu flestir að grunnurinn væri fyrir hendi að því að festa Þórsliðið loks í sessi í efstu deild á ný.
Margt hefur hins vegar breyst í herbúðum Þórs eftir að síðasta tímabili lauk og hófst með því að Benedikt kvaddi Akureyri eftir farsælt tveggja ára starf. Hinn 19 ára gamli Tryggvi Snær Hlinason, sem skaust hátt upp á stjörnuhimininn sem eitt mesta efni íslenska körfuboltans í áraraðir samhliða uppgangi Þórs, samdi við spænska meistaraliðið Valencia og var einn af sjö leikmönnum sem hurfu á braut eftir síðasta tímabil. Þessum miklu breytingum hefur fylgt meiri svartsýni og var Þór spáð langneðsta sæti deildarinnar í spánni fyrir tímabilið nú í haust.
Hjalti Þór Vilhjálmsson tók við þjálfun liðsins og bíður nú það verkefni að móta nánast nýjan leikstíl miðað við síðustu ár, þar sem hinn 216 sentimetra hái Tryggvi Snær var driffjöður jafnt í vörn sem sókn. Eftir tvo leiki í Dominos-deildinni hafa Þórsarar hins vegar sýnt klærnar og unnu Keflavík í síðasta leik eftir tap fyrir Haukum í fyrstu umferð.
Þegar Einar Bollason kom óvænt norður
Ef við spólum aftur til ársins 1967 þá komum við að fyrsta stóra skrefinu fram á við hjá körfuknattleiksliði Þórs. Einar Bollason, goðsögn í íslenskum körfuboltaheimi, var óvænt ráðinn spilandi þjálfari liðsins sumarið 1967. Þór hafði þá vorið áður unnið sig upp í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins og mikið lagt í sölurnar. Áhuginn fylgdi með og Skemman, heimavöllur Þórs á Akureyri, var alltaf full á heimaleikjum á þessum tíma.Koma Einars norður, sem hafði þar áður orðið þrefaldur Íslandsmeistari með yfirburðaliði KR, vakti skiljanlega mikla athygli og undir hans spilandi stjórn hafnaði Þór í 3. sæti efstu deildar tvö ár í röð. Einar þjálfaði jafnframt alla aðra flokka hjá Þór og gerði meðal annars kvennalið félagsins að Íslandsmeisturum árið 1969, sem var fyrsti titill kvennaliðsins af þremur næstu sjö árin.
Einar fór aftur suður eftir tvö ár hjá Þór og við starfi hans tók Guttormur Ólafsson. Segja má að þessi tími hafi verið gullaldarár Þórs þar sem liðið hefur komist næst því að berjast um titla, en svo fór smátt og smátt að halla undan fæti. Á áttunda áratugnum flakkaði Þórsliðið nokkuð á milli deilda en árið 1981 var ákveðið að stokka spilin upp á nýtt og senda liðið til leiks í 2. deild. Jón Már Héðinsson, núverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri, var þá einn þekktasti leikmaður liðsins og segir að hina efnilegu leikmenn Þórs hafi einfaldlega skort reynslu af því að vinna leiki. Þór vann 2. deildina með yfirburðum og það gaf liðinu byr í seglin á ný þar sem leikmenn á borð við Konráð Óskarsson, Björn Sveinsson og Jóhann Sigurðsson, svo einhverjir séu nefndir, báru liðið uppi næstu árin.
Umdeild ákvörðun sem olli fjaðrafoki
Þór hélt áfram að flakka nokkuð á milli deilda en næsta uppsveifla kom þegar Ágúst Herbert Guðmundsson, einn helsti máttarstólpinn í körfuboltanum hjá Þór síðustu ár og áratugi sem leikmaður og síðar þjálfari, tók við liðinu um miðjan tíunda áratuginn. Undir hans stjórn festi liðið sig í sessi í efstu deild og náði sínum besta árangri á síðari árum. Það var veturinn 1999-2000 þegar liðið hafnaði í 7. sæti og tapaði fyrir Haukum í oddaleik í átta liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.Aftur fór hins vegar að halla undan fæti. Pétur Guðmundsson, eitt þekktasta nafn íslenskrar körfuboltasögu, var ráðinn þjálfari Þórs sumarið 2002 en hætti skömmu síðar. Rétt áður en tímabilið hófst var ákveðið að draga Þórsliðið úr keppni í úrvalsdeildinni vegna rekstrarerfiðleika og byrja upp á nýtt í 2. deild, þeirri þriðju efstu.
Það olli gríðarlegu fjaðrafoki innan félagsins, en Þór staldraði stutt við í neðstu deild og vann sig upp á meðal þeirra bestu á ný vorið 2005. Liðið náði þó ekki stöðugleika, féll í annað sinn á fjórum árum vorið 2009 og þurfti að bíða í sjö ár eftir næsta tækifæri á meðal þeirra bestu eins og rakið var í upphafi.
Bráðefnilegir leikmenn sem vekja mikla eftirvæntingu
Það sem einkennir Þórsara og hefur gert alla tíð er sú stefna að skila leikmönnum úr yngri flokkum og byggja á þeim í meistaraflokki. Eftir mikla niðursveiflu eftir fallið árið 2009 var þessi stefna undirstrikuð enn frekar með ráðningu Benedikts Guðmundssonar á sínum tíma. Ágúst Guðmundsson hefur byggt upp sigursæla yngri flokka og 10. flokkurinn vann meðal annars Scania Cup í Svíþjóð síðasta vor. Miklar vonir eru bundnar við þær kynslóðir körfuboltamanna sem næstir eiga að taka við Þórskeflinu.Það er mögnuð staðreynd að af þeim 12 leikmönnum sem valdir voru til þátttöku með U16 ára landsliði Íslands á Evrópumótinu í sumar voru fimm Þórsarar. Þrír þeirra eru í leikmannahópi Þórs í efstu deild í ár; Baldur Örn Jóhannesson, Júlíus Orri Ágústsson og Kolbeinn Fannar Gíslason, auk þess sem Sindri Már Sigurðsson og Gunnar Auðunn Jónsson eru að banka á dyrnar hjá meistaraflokki.
En sagan endurtekur sig og það eru áhugaverð líkindi með Þórsliðinu á mismunandi tímum síðustu áratugi. Stór nöfn í körfuboltanum hafa verið fengin norður; Einar Bollason fyrst og Benedikt Guðmundsson nú síðast, sem lyftu Þórsliðinu á hærri stall. Eftir brotthvarf Einars á sínum tíma fór að halla undan fæti og nú er það Þórsliðsins að afsanna það að brotthvarf Benedikts muni einnig leiða til niðursveiflu. Því miðað við hvað margir efnilegir leikmenn eru að skila sér upp í meistaraflokkinn á næstu árum má vonast eftir því að Þór fari aftur að festa sig í sessi á meðal þeirra bestu.