Lífsstíllinn
Bílaframleiðendur eiga enn eftir að hanna hinn fullkomna alhliða bíl sem hentar í hvað sem er. Jafnvel hraðskreiðustu jeppar eru ekki gerðir fyrir kappakstursbrautina, og glæsilegustu sportbílar eiga ekki sérlega vel við þegar farið er í óperuna eða skotist út í stórmarkað til að kaupa í matinn.
Hvað er þá til ráða annað en að flytja í hús með stórum bílskúr, kaupa jeppa fyrir vetrarfærðina, drossíu fyrir óperuferðirnar og sportbíl fyrir spanið?
Bílaáhugamenn í Atlanta í Bandaríkjunum geta farið aðra leið, og einfaldlega keypt sér áskrift að Porsche.
Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem áskrifendur borga 2.000 eða 3.000 dali mánaðarlega og geta pantað heim að dyrum þann Porsche sem þeim hugnast hverju sinni. Þeir sem borga 2.000 dali fá að velja á milli Cayman, Boxter, Macan og Cayenne, en til að geta leigt 911 eða Panamera þarf að fara upp í dýrari áskriftarflokkinn.
Allt nema bensínið er innifalið í áskriftargjaldinu, og þarf því ekki að hafa áhyggjur af tryggingum, sköttum eða viðhaldi. Panta má bílinn í gegnum snjallsímaforrit og starfsmenn Porsche afhenda ökutækið á þeim stað og tíma sem þess er óskað. Viðskiptavinurinn getur skipt um bíl eins oft og hann vill, og ekið eins marga kílómetra og hann kærir sig um. ai@mbl.is