— AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Upp á síðkastið hefur demantamarkaðurinn verið jafn hrjúfur og óslípaður eðalsteinn. Verðið á slípuðum demöntum hefur farið lækkandi og er með því lægsta sem sést hefur í áratugi.

Upp á síðkastið hefur demantamarkaðurinn verið jafn hrjúfur og óslípaður eðalsteinn. Verðið á slípuðum demöntum hefur farið lækkandi og er með því lægsta sem sést hefur í áratugi. Mitt í þessum fallandi markaði reyndi demantafyrirtækið Petra Diamonds, sem skráð er í kauphöllinni í London, að stækka námastarfsemi sína í Suður-Afríku. Er verkefnið nú orðið á eftir áætlun. Í síðustu viku tilkynnti fyrirtækið að það myndi hugsanlega ekki ná að uppfylla eitt ákvæða í lánasamningum sínum. Þegar hefur lágt gengi hlutabréfa Petra fallið um 4% til viðbótar, þar sem hlutafjáraukning til að styrkja efnahagsreikninginn hefur verið verðlögð í bréfunum. Það virðist þó hafa verið óþarfi.

Fyrir það fyrsta þá eru horfur á að demantamarkaðurinn muni hjarna við. Um það bil helmingi heimsmarkaðarins með demanta er stjórnað af hinu rússneska Alrosa og De Beers frá Suður-Afríku. Að undanförnu hafa þessir tveir risar ekki leitt hugann mikið að viðskiptavinum sínum neðar í virðiskeðjunni; þeim sem skera og slípa steinana. En þar sem verðið á óslípuðum demöntum hefur lækkað um nærri fimmtung á þremur árum sjá fyrirtækin hlutina núna í breyttu ljósi. Undanfarið ár hafa þau reynt að draga úr framboði þegar eftirspurnin eftir demöntum er lítil.

Minnkandi áhugi kaupenda hefur truflað tilraunir til að draga úr framboði. Kína og Indland kaupa um það bil sjötta hvern demant í heiminum en þar dróst demantasala saman í fyrra um 13% í dollurum. Á hinn bóginn jókst sala á demöntum til Bandaríkjanna og Japans á síðasta ári, en til samans mynda þau nærri þrefalt stærri demantamarkað en fyrrnefndu löndin tvö.

Og kannski gæti Petra bráðum haft góðar fréttir að segja. Það var vissulega óheppilegt fyrir Williamson-námu félagsins í Tansaníu þegar stjórnvöld þar í landi ákváðu að setja takmörk á útflutning. Það tók rými á fréttasíðum, jafnvel þótt nær öll demantaframleiðsla Petra komi frá námum fyrirtækisins í Suður-Afríku. Það varð töf á umbótum á Finsch- og Cullinan-námunum, sem eru öllu þekktari, en þeim ætti að ljúka á næsta ári. Í kjölfarið má vænta meiri hagnaðar fyrir afskriftir og fjármagnsliði, sem kæmi í veg fyrir að fyrirtækið standi ekki við lánaskilmála sem kveða á um að heildarskuldir félagsins í árslok séu ekki meira en sem nemur fjórum sinnum EBITDA.

Hættan á að þetta markmið náist ekki er það sem veldur því að hlutabréf Petra seljast á verði undir bókfærðu virði. En það verður að teljast ósennilegt að suðurafrískir lánveitendur vilji taka námur Petra yfir eða lýsa því of snemma yfir að lánin séu vandræðalán. Tímabært er fyrir fjárfesta að mæta hörðu með mjúku.