Íbúðarhúsnæði Þjóðskrá Íslands fær 34.000 til 36.000 lögheimilistilkynningar ár hvert inn á sitt borð. Lítið brot þeirra er rangar skráningar.
Íbúðarhúsnæði Þjóðskrá Íslands fær 34.000 til 36.000 lögheimilistilkynningar ár hvert inn á sitt borð. Lítið brot þeirra er rangar skráningar. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Reglulega berast sögur af því þegar fólk lætur skrá lögheimili sitt í íbúðarhúsnæði sem það hefur engin tengsl við.

Sviðsljós

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Reglulega berast sögur af því þegar fólk lætur skrá lögheimili sitt í íbúðarhúsnæði sem það hefur engin tengsl við. Mikla athygli vakti í byrjun árs 2012 þegar maður var handtekinn fyrir að brjótast inn í Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu í Reykjavík, en í ljós kom að hann hafði skráð lögheimili sitt þar. Húsið, sem notað er undir fundi og opinberar móttökur, er í eigu íslenska ríkisins en samt tókst manninum að láta skrá sig þar hjá Þjóðskrá Íslands. Skráningin var þegar felld úr gildi og lög um almannaskráningu í kjölfarið endurskoðuð. Hafa nú miklar umræður skapast í hópi á Facebook þar sem fólk deilir sögum af reynslu sinni og annarra af röngum lögheimilisskráningum.

Undirheimar banka upp á

„Komst að því eftir að vafasamir gaurar bönkuðu upp á hjá mér að frændi minn, sem var í neyslu og ég ekki í samskiptum við, var skráður með lögheimili hjá mér,“ ritar ein í hópnum. „Komst að þessu þegar það bankaði maður upp á með ábyrgðarpóst handa einhverjum sem ég hafði ekki hugmynd um hver var. Fór og tékkaði og þá voru 3 einstaklingar skráðir með lögheimili í íbúðinni minni,“ ritar önnur kona.

Enn önnur lýsir því meðal annars þegar ókunnugur maður opnaði glugga á forstofu íbúðarinnar og kallaði nafn annars manns sem þá var ranglega skráður þar til heimilis. Hún segir „fullt af vafasömu liði“ hafa komið að heimili hennar í leit að manninum, en sá bjó eitt sinn í íbúðinni á undan henni. „Ég var orðin drulluhrædd á tímabili, en það hefur greinilega spurst út í undirheimunum að hér býr venjuleg barnafjölskylda og þessi maður fluttur.“

Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, segir stofnunina fá 34.000 til 36.000 lögheimilistilkynningar ár hvert og í einni tilkynningu getur t.a.m. verið um að ræða heila fjölskyldu. Telur hún rangar skráningar vera um 1-2% allra lögheimilisflutninga.

„Það koma alltaf einhver tilvik upp, en þá er strax farið í að bregðast við þeim eins hratt og hægt er,“ segir Margrét og bendir á að ástæður rangra skráninga séu margvíslegar. „Það að eigandi sé að tilkynna um að einhver sé skráður til lögheimilis á hans fasteign eru fæstu tilvikin og þau eru enn færri þegar eigandinn hefur engin tengsl við viðkomandi. En auðvitað koma slík tilvik upp. Stundum er eigandinn ósáttur við að einhver sé enn skráður til heimilis á hans lögheimili, s.s. leigjendur sem hafa ekki flutt sig,“ segir hún og bætir við að sum mál séu vegna ágreinings ýmiss konar og önnur vegna sambúðarslita. Þá geta komið upp tilvik þar sem einstaklingur skráir sig óvart til húsa á röngum stað, s.s. með því að ruglast á götunúmeri eða íbúð.

Myndi hægja á afgreiðslu

En getur fólk skráð sig í húsi án þess að sýna fram á með einhverjum hætti að þinglýstur eigandi þess sé því samþykkur?

„Það myndi hægja mjög á málsmeðferðartímanum ef við þyrftum, fyrir hvert einasta tilvik, að athuga hver er þinglýstur eigandi og ef það er ekki sá sem er að skrá sig að afla samþykkis hans. Svo eru margir fasteignaeigendur búsettir erlendir og leigja út húsnæði sitt. Það myndi því tefja ferlið að þurfa að hafa uppi á öllum.“