Saga tilfinninga er svo funheitt rannsóknarsvið í sagnfræði að farið er að tala um „the Emotional Turn“ sambærilegt við „the Linguistic Turn“ og fleiri slíkar vendingar síðustu aldar í hugvísindum. Sólveig Ólafsdóttir, dotktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands, flytur erindið „Rosenwein og Reddy. Fræðilegar samræður um sögulegar tilfinningar“ kl. 12.05 í dag, þriðjudaginn 28. nóvember, í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.
Sólveig rekur sögu tilfinninganna í grófum dráttum og ber saman hugtakaskilgreiningar og áherslur tveggja stórvelda í þessari sögu, þeirra Williams Reddy og Barböru Rosenwein. Þau hafa bæði þróað kenningar sínar á löngum tíma og síðan gefið út bækur sem eru afrakstur þeirrar þróunar, Reddy árið 2001 og Rosenwein árið 2015.
Heimildaflokkar þeir sem rannsóknir þeirra tveggja byggjast á eru afar ólíkir. Reddy byggir í bók sinni mikið á sögu stjórnskipunar í Frakklandi á átjándu og nítjándu öld. Rosenwein rýnir í evrópska miðaldatexta.