Færri en 30 aðilar hafa sagt upp samningum sínum við vefhýsingarfyrirtækið 1984.is sem varð fyrir algjöru kerfishruni á dögunum, með þeim afleiðingum að vefsíður fóru niður og tölvupóstur varð óaðgengilegur. Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segist í samtali við Morgunblaðið vera hrærður yfir hve lágt hlutfallið er. „Við erum með yfir 7.000 vefi og 23.000 tölvupóstsnotendur,“ segir Mörður. Hann segir að starfsemin sé hægt og rólega að komast í fyrra horf, þó áfram verði unnið að viðgerðum í þessari viku. „Við vorum að laga um 140 vefi um helgina, sem er ekki stórt hlutfall af heildinni. Svo eru kannski 10 tilvik þar sem enn vantar gamlan póst, og þá lögum við það í snarhasti.“
Félagið sendi út tilkynningu til viðskiptavina um helgina, og segir Mörður að furðugóð viðbrögð hafi fengist. „Við báðum viðskiptavini að skoða vefi sína og senda okkur tölvupóst ef eitthvað væri í ólagi.“
Mörður segir að rannsókn á biluninni standi enn yfir. Spurður um tryggingamál félagsins í ljósi mögulegs tjóns hjá viðskiptavinum, segir Mörður að þau sé óljós og verði ekki ljós fyrr en á síðari stigum. Hann bætir við að öllum tæknilegum arkitektúr félagsins verði breytt í kjölfar áfallsins. „Við munum svo gefa út skýrslu þegar allt liggur fyrir.“
Spyr um reglugerðir
Ferðaþjónustufyrirtækið Farvel varð fyrir miklum áhrifum af kerfishruninu. Viktor Sveinsson framkvæmdastjóri segist ekki ætla að leita réttar síns í málinu, en hyggst segja upp samningi við hýsingarþjónustuna. Viktor er ósáttur við litla upplýsingagjöf frá 1984.is, og spyr sig hvaða reglugerðum svona þjónusta lýtur. „Ferðaþjónustufyrirtæki eins og ég rek er háð því að vera með leyfi og bankaábyrgðir,“ segir Viktor.Kristján Sigurjónsson, eigandi Túristi.is, missti vefsíðuna niður í nokkra daga. „Þetta er mitt eina starf, og það munar um að hafa ekki tekjur í 4-5 daga,“ segir Kristján. Hann dregur þann lærdóm af þessu að það borgi sig að gera sjálfur afrit af vefsíðunni. tobj@mbl.is