Jón Pálmason þingmaður fæddist á Ytri-Löngumýri í Blöndudal 28.11. 1888. Foreldrar hans voru Pálmi Jónsson og Ingibjörg Eggertsdóttir, bændur á Ytri-Löngumýri. Jón kvæntist Jónínu Valgerði Ólafsdóttur og eignuðust þau börnin: Ingibjörgu, f.

Jón Pálmason þingmaður fæddist á Ytri-Löngumýri í Blöndudal 28.11. 1888. Foreldrar hans voru Pálmi Jónsson og Ingibjörg Eggertsdóttir, bændur á Ytri-Löngumýri.

Jón kvæntist Jónínu Valgerði Ólafsdóttur og eignuðust þau börnin: Ingibjörgu, f. 1917, Eggert Jóhann, f. 1919, Margréti Ólafíu, f. 1921, Salome, f. 1926, og Pálma, f. 1929, d. 2017.

Jón lauk búfræðiprófi frá Hólum árið 1909 og var við verklegt nám í gróðrarstöðinni á Akureyri 1909.

Jón var bóndi, sinnti þingmennsku, sveitarstjórnarstörfum og sat í hinum ýmsu nefndum og ráðum. Hann bjó á Ytri-Löngumýri og á Mörk í Laxárdal en lengst af á Akri við Húnavatn frá 1923 og til æviloka.

Jón sat í hreppsnefnd Bólstaðarhlíðarhrepps í rúmt ár, þá var hann oddviti Svínavatnshrepps í fjögur ár eða til ársins 1923. Jón var þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1933-59, í Austur-Húnvatnssýslu. Hann var skipaður landbúnaðarráherra 6. desember árið 1949 og gegndi því embætti í ár. Hann var settur sem yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna frá 1937-63, var kosinn 1942 í raforkumálanefnd og sat í nýbýlastjórn 1947-70, sat í bankaráði Landsbankans í þrjú ár, þar til hann tók sæti í bankaráði Búnaðarbankans 1956-68.

Jón Pálmason var tíu sinnum kosinn forseti sameinaðs Alþingis, næstoftast, á eftir Jóni Sigurðssyni forseta.

Eftir Jón liggur ein ljóðabók; Ljóðmæli, sem kom út 1965. Í henni er að finna safn af hefðbundnum ljóðum. Þóra frá Kirkjubæ ritar formála um alþýðukveðskap almennt og segir frá kvæðum Jóns. Í fréttatilkynningu bókarinnar segir að Jón sé þekktur hagyrðingur.

Rituð var bók um Jón á Akri og kom út árið 1978. Hersteinn Pálsson bjó til prentunar, í ritröðinni Man ég þann mann; bókaflokkur um mæta menn.

Jón lést 1.2. árið 1973.