Alls ekki er útilokað að FH-ingar geti unnið upp þriggja marka tap í síðari leiknum við Tatran Presov frá Slóvakíu, sem fram fer í Kaplakrika á laugardaginn.
Aðra eins þrekraun hafa FH-ingar gengið í gegnum í þessari keppni. Skemmst er minnast skrípaleiksins í kringum vítakeppnina í Pétursborg.
Þátttaka í riðlakeppninni, 16-liða úrslitum, þýðir að FH leikur sex leiki til viðbótar í keppninni frá febrúar og fram til loka mars. Þrír heimaleikir og þrír á útivelli.
Þetta mun svo sannarlega krydda keppnistímabilið hér heima en um leið sennilega raska keppni á Íslandsmótinu. Þá má ekki gleyma miklum kostnaði við þátttökuna. Dregið verður í riðla á fimmtudaginn og þá skýrist hverjum FH-ingar mæta gangi allt að óskum á laugardaginn.
Fyrir hádegi í dag verður dregið í Áskorendakeppni Evrópu þar sem nafn karlaliðs ÍBV verður í hattinum ásamt 15 öðrum liðum. Meðal liðanna er Potaissa Turda frá Rúmeníu sem mætti Val í undanúrslitum keppninnar í vor. Síðari leikurinn var frægur að endemum vegna frammistöðu dómaranna og eftirlitsmanns. Það er léttir að vita að Eyjamenn eru í sama styrkleikaflokki og Rúmenarnir og liðin geta ekki dregist saman í þessari umferð.