Staðan í fjármálum Reykjavíkurborgar er í hrópandi mótsögn við taktinn í íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Þrátt fyrir stöðugleika og uppgang í efnahagslífinu eru fjármál borgarinnar í megnasta ólestri. Skuldirnar hlaðast upp og gildir þá einu að allir skattstofnar eru í hámarki.
Albert Þór Jónsson, viðskiptafræðingur og MCF í fjármálum fyrirtækja, skrifar grein í Morgunblaðið fyrir helgi þar sem hann bendir á að samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2018 og fimm ára áætlun 2018 til 2022 muni heildarskuldir borgarinnar nema 300 milljörðum króna í lok næsta árs. „Á toppi hagsveiflunnar á Íslandi eru allir skattstofnar Reykjavíkurborgar fullnýttir en þrátt fyrir það hafa skuldir Reykjavíkurborgar aukist mikið þegar skynsamlegra hefði verið að greiða niður skuldir til þess að takast á við samdráttartíma,“ skrifar Albert Þór. „Ef skuldsetningar Reykjavíkurborgar halda áfram að aukast með slíkum hraða með alla skattstofna fullnýtta á toppi hagsveiflunnar mun Reykjavíkurborg stefna í greiðsluþrot innan fárra ára.“
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber sveitarstjórnum að sjá til þess að rekstri sveitarfélaga sé þannig háttað að þau geti sinnt skyldubundnum verkefnum sínum „til framtíðar“, það er án þess að fara á hausinn. Sett eru tvö skilyrði: „1. samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum, og 2. heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum.“
Nú eru heildarskuldir sem hlutfall af reglulegum tekjum 187%, sem er þónokkru hærra en kveðið er á um í lögunum. Gangi áætlanir eftir verður hlutfallið 169% á næsta ári og enn yfir lagaskyldu, eins og Albert Þór bendir á.
Það merkilega er að þetta aðhaldsleysi í fjármálum borgarinnar kemur ekki fram í uppbyggingu hennar. Í Reykjavík er húsnæðiskreppa, sem á þátt í að spenna upp verð og veldur því að fólk hrekst í önnur sveitarfélög. Sömu öfl hafa verið við völd í tæp átta ár, en engu að síður er nánast öll uppbygging á íbúðarhúsnæði byggð á fyrirheitum og framtíðarmúsík. Í vor verða sveitarstjórnarkosningar. Það er rétt að halda þessum tölum til haga fyrir þær. Borgin þolir ekki fjögur ár til viðbótar af þessari óstjórn.