Hildur Loftsdóttir
hilo@mbl.is
Ásdís Jóelsdóttir hefur skrifað bókina Íslenska lopapeysan – uppruni, saga og hönnun. „Árið 2014 gerði ég rannsóknarskýrslu um uppruna og sögu peysunnar fyrir Heimilisiðnaðarsafnið á Blöndósi, Gljúfrastein – hús skáldsins og Hönnunarsafn Íslands. Þá komst ég að því hvað lítið er til um uppruna og sögu peysunnar og að það eru ýmsir áhrifavaldar sem hafa komið að mótun hennar. Ég vildi klára dæmið og hélt áfram með rannsóknina í um tvö ár og þá fór þetta að verða heildstætt verk,“ segir Ásdís sem hefur einnig ritað Sögu fatagerðar og fatahönnunar á Íslandi, kennt fatahönnun og hönnunarsögu í mörg ár í framhaldsskóla og er núna lektor í textíl við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Prjónað fyrir hermenn
„Í bókinni tek ég ólíka þætti; ljósmyndir, ritaðar heimildir, aug-lýsingar, útgefnar uppskriftir og fleira og raða þeim upp í tímaröð, til að draga upp mynd af sögunni og upprunanum. Einnig tók ég viðtöl við fjölda einstaklinga. Ég skoða útlitið, lopann, munstrin, prjóntæknina og peysuna sem sölu- og útflutningsvöru,“ útskýrir Ásdís.Uppruna íslensku lopapeysunnar má helst rekja til gróf- og fljótprjónaðra lopapeysa á bændur og sjómenn á fyrri hluta 20. aldar.
„Þegar líða tók á 4. og 5. áratuginn varð mikil prjónatíska erlendis, og sú tíska smitaðist til Íslands. Íslenska lopapeysan fer þá að þróast út í útprjónaðar útivistarpeysur og vinsælli minjavöru m.a. fyrir hermennina sem hingað komu.“
„Grænlenskar“ peysur
Eitt helsta einkenni lopapeysunnar er hringlaga munsturbekkur yfir axlir og herðar sem þróast hefur frá því á síðari hluta 4. áratugarins.„Sú þróun tengist m.a. því að við vorum nýlenduþjóð Dana og margir héldu að við værum eskimóar eins og Grænlendingar og byggjum í snjóhúsum eins og þeir. Munstrið á kraganum á grænlenska kvenbúningnum hafði áhrif á íslenskar prjónakonur því það var eftirsótt hjá ferða- og hermönnum sem hingað komu að kaupa „grænlenskar“ peysur af Íslendingum. Það var ásókn í framandleika á þeim tíma.“
Auður Laxness var m.a. undir áhrifum af þessu. Hún sagði í viðtali að hún hefði fengið hugmyndir að munsturbekkjunum í peysum sínum frá bók sem Halldór gaf henni með inkamunstrum, og mögulega hefur hún blandað þeim áhrifum saman við íslenska munsturbekki sem finna mátti í fjölda íslenskra munsturbóka á þessum tíma.
„Auður er líka sérstök fyrir að hafa gert lopapeysur árið 1943 sem eru alls ekkert ósvipaðar því sem við erum að gera í dag. Þannig má segja að hún sé fyrsti nafngreindi hönnuðurinn að lopapeysunni. Ekki er hægt að segja að hún hafi verið sá fyrsti, því við vitum ekki hver hannaði aðrar peysur sem ég hef fundið frá 4. og 5. áratugnum,“ segir Ásdís.
Þótti sérstök náttúruafurð
„Lopapeysan fer að þróast sem útflutningsvara á sjötta og sjöunda áratugnum og árið 1970 gengu Íslendingar í EFTA sem þýddi meðal annars aukin viðskipti við aðrar þjóðir. Helst var það að þakka handprjónuðu lopapeysunni með hringlaga munsturbekknum, hespulopanum sem kom á markað 1968 og lopabandinu í vélprjónaða fatnaðinum að ullarfyrirtækin Álafoss og Gefjun urðu að stærstu útflutningsfyrirtækum landsins. Íslensku prjónkonunum tókst að þróa aðlaðandi útlit á íslensku lopapeysuna og móta hana í fjöldaframleidda hraðprjónavöru úr ódýru hráefni. Á þessum tíma var mikil peysutíska, og með því að mynda hana í tískulegu umhverfi á ungu íslensku sýningarfólki var líklegra að hún myndi ganga erlendis.Gefjun og Álafoss framleiddu alls konar ullarvörur, en það var handprjónaða lopapeysan í sauðalitunum sem var helsti fulltrúi okkar á mörkuðum erlendis, því hún þótti sérstök náttúruafurð. Mikil skíðatíska var á þessum árum og það var markvisst farið að selja lopapeysur til Bandaríkjanna og fleiri staða, og það varð svakaleg sprenging.“
Undir lok 9. áratugarins fjaraði þessi þykka lopatíska út í staðinn urðu bómullar- og síðar flíspeysur vinsælar auk þess sem okkur sjálfum fannst lopapeysan fremur hallærisleg.
Ullariðnaðurinn fór á hausinn 1991, en Ístex var stofnað sama ár og hélt áfram bandvinnslunni.
Ný vitundarvakning
„Á 50 ára lýðveldisafmæli Íslendinga á Þingvöllum 1994 mátti m.a. sjá barnakór þar sem börn voru klædd lopapeysum. Má því segja að vitundarvakning hafi orðið í því að sækja mætti þjóðarímyndina í lopapeysuarfinn. Ekki bara þjóðbúningana heldur líka í þessa alþýðu arfleifð frá grasrótinni. Einnig kom í ljós að gömlu uppskriftabæklingarnir voru löngu uppseldir, og við stóðum frammi fyrir því að íslensk lopapeysu- og munsturhefð myndi deyja út. Þá kom þrýstingur á Ístex að gefa út prjónabækur með gömlu lopapeysumunstrunum, og starfsfólk í hönnunar- og söludeild fyrirtækisins fór í að vinna með gömlu munstrin og hafa uppi á prjónakonunum sem höfðu hannað þau og síðan að gefa út prjónabækur,“ segir Ásdís.„Á tíunda áratugnum öðlaðist lopapeysan aftur virðingu, en þá voru stórar og þykkar peysur í tísku, sem síðan urðu of þykkar til að nýtast með útivistarfatnaðinum sem þá var að ná miklum vinsældum. Peysan fer þá að þynnast og er prjónuð úr tvöföldum plötulopa eða léttlopa og hentar þá einnig sem innipeysa. Í bankahruninu fórum við aftur að tengja lopann við lífsbjörgina eins
og í gamla daga, hún kom í ýmsum útgáfum á þessum árum. Með auknum ferðamannastraumi kom fram ný kynslóð prjónakvenna sem prjóna heima fyrir stóru minja- og útivistarverslanirnar.
Nauðsynlegt er að upprunamerkja lopapeysurnar; að það standi á peysunni að hún sé prjónuð af íslenskri prjónakonu og að líka sé getið um nafn hennar og hver hafi hannað munstrið. Mjög margir útlendingar eru meðvitaðir um þetta, á meðan öðrum er sama þótt peysan hafi verið prjónuð í Kína.“
Þyrfti að vera lopapeysuráð
Ásdís segir að af hennar hálfu eigi bókin að vera þáttur í því að virða, viðhalda og vernda íslensku lopapeysuna.„Það er gríðarlega mikilvægt því þetta er íslensk frumhönnun. Íslensk munstur eru hluti af alþjóðlegum munsturpotti, en það er bara spurning hvernig við nýtum þennan munsturpott og hvernig við þróum vöruna og gerum hana aðlaðandi. Það eru íslensku prjónakonurnar sem hafa þróað og viðhaldið prjóntækninni og þær voru líka fyrstu munsturhönnuðirnir. Þær sóttu fyrirmyndir í gamlar munsturbækur, útprjónaða vettlinga eða til náttúrunnar,“ segir Ásdís og bendir á að helst þyrfti að vera til lopapeysuráð sem héldi utan um munsturgerðina og heildarútlit sem og gerð peysunnar. Einnig þurfa söfnin að safna peysum og standa sig í samtímasöfnuninni. Menningararfur þarf ekki að vera nokkur hundruð ára gamlir hlutir, heldur getur hann verið nær okkur í tíma, þess vegna eitthvað sem kemur fram fyrir 70-100 árum, en á sér þó dýpri rætur í handverksmenningu þjóðarinnar, eins og er um uppruna, þróun og hönnun íslensku lopapeysunnar,“ segir Ásdís að lokum.