Mannvinur Sóley Ásta Andreu- og Davíðsdóttir ákvað að hrinda af stað söfnun til styrktar bágstöddum hér á landi. Til að vekja athygli á uppátækinu mun Sóley Ásta einnig skerða hár sitt og segist hún hlakka mjög til þess.
Mannvinur Sóley Ásta Andreu- og Davíðsdóttir ákvað að hrinda af stað söfnun til styrktar bágstöddum hér á landi. Til að vekja athygli á uppátækinu mun Sóley Ásta einnig skerða hár sitt og segist hún hlakka mjög til þess. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Mig langar bara til þess að hjálpa fólki,“ segir Sóley Ásta Andreu- og Davíðsdóttir, í samtali við Morgunblaðið og vísar í máli sínu til þess að hún hefur nú hrundið af stað söfnun til styrktar Barnaheillum. Fjáröflunin er þó með nokkuð óhefðbundnu sniði, en Sóley Ásta hefur heitið því að skerða hár sitt takist henni að safna 50 þúsund krónum eða meira fyrir lok morgundags, miðvikudags.

Þegar blaðamaður náði tali af henni í gærdag var ljóst að Sóley Ásta yrði snöggklippt um komandi jól því hún hafði þá þegar safnað vel á sjöunda tug þúsunda króna. „Ég er eiginlega í hrikalegu sjokki og bjóst alls ekki við þessu. Ég var eiginlega að búast við því að það myndi taka margar vikur að safna svona miklu,“ segir hún, en móðir hennar, Andrea Eyland Sóleyjar- og Björgvinsdóttir, auglýsti söfnunina fyrst á Facebook-síðu sinni. Fljótlega fór boltinn að rúlla og hafa nú fjölmargir vinir og fjölskyldumeðlimir lagt söfnuninni lið.

Las grein um fátækt á Íslandi

Spurð hvers vegna hún ákvað að styrkja Barnaheill svarar Sóley Ásta: „Ég las nýlega grein um fátækt á Íslandi og sá að það eru um 9.000 krakkar sem eiga ekki nógu mikinn pening fyrir mat. Stórfjölskyldan mín á eiginlega allt sem hún þarf, en það er til fullt af krökkum hér sem eiga eiginlega ekki neitt. Mig langar til þess að hjálpa þeim,“ segir hún og bendir á að hún hafi hafið söfnun sína í fyrrakvöld.

Sóley Ásta, sem aldrei hefur verið snoðklippt áður, segir það vissulega eiga eftir að vera skrítið að vera stuttklippt á jólamyndunum. „En ég er mjög spennt fyrir því líka,“ bætir hún við.

Stefnir á leiklist í framtíðinni

Sóley Ásta er 12 ára gömul og búsett í Laugardal í Reykjavík. Hún stundar nú nám í Laugalækjarskóla, en hefur sett stefnuna á leiklistarnám hjá Listaháskóla Íslands í framtíðinni. „Mig langar mjög til að verða leikkona,“ segir hún. „Mér hefur alltaf fundist þessi vinna spennandi, að geta túlkað mismunandi tilfinningar hjá ólíkum persónum,“ segir hún enn fremur.

Þeim sem vilja styrkja Sóleyju Ástu og Barnaheill er bent á að hafa samband við móður hennar á Facebook undir nafninu Andrea Eyland.