Ísland er heiðursgestur á jólamarkaðnum í Strassborg þetta árið, en hann er einn stærsti og elsti markaður sinnar tegundar í Evrópu. Við opnun hans tók Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Frakklandi, á móti Roland Ries, borgarstjóra Strassborgar, og færði honum vettlinga að gjöf við athöfnina svo hann færi ekki í jólaköttinn.
Íslensku jólaþorpi hefur verið slegið upp á markaðnum og þar kynna íslensk fyrirtæki vörur sínar fyrir gestum og gangandi. Þeirra á meðal eru Bæjarins bestu, Lýsi, Reykjavík Distillery og Handprjónasambandið. Auk þess hafa íslensku jólasveinarnir vakið mikla kátínu á markaðnum, sérstaklega hjá yngstu kynslóðinni.