[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Danmörk Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Við þurfum að minnsta kosti eitt stig úr leiknum til að vera vissir um efsta sætið. Ég hef hinsvegar ekki miklar áhyggjur.

Danmörk

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Við þurfum að minnsta kosti eitt stig úr leiknum til að vera vissir um efsta sætið. Ég hef hinsvegar ekki miklar áhyggjur. Við vinnum leikinn á heimavelli,“ sagði handknattleiksmaðurinn Tandri Már Konráðsson hjá Skjern en lið hans leikur síðasta leik sinn í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handknattleik á heimavelli á laugardaginn við Gorenje Velenje frá Slóveníu. Skjern er í efsta sæti C-riðils Meistaradeildar fyrir lokaumferðina, tveimur stigum á undan Velenje sem vann fyrri viðureign liðanna með tveggja marka mun. „Við lékum einn okkar versta leik á tímabilinu gegn þeim á erfiðum útivelli fyrr í vetur,“ sagði Tandri Már brattur þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær.

Gangi allt eftir hjá Skjern og liðið verður í efsta eða næstefsta sæti C-riðils Meistaradeildarinnar þá kemst liðið í 16-liða úrslit og mætir annaðhvort Montpellier frá Frakklandi eða Motor Zaporozhye frá Úkraínu sem sitja í tveimur efstu sætum D-riðils. „Þótt álagið sé mikið þá er hrikalega gaman að taka þátt í þessari keppni meðfram deildarkeppninni í Danmörku,“ sagði Tandri Már sem lék stórt hlutverk jafnt í vörn sem sókn í sigurleik Skjern á Ademar León, 31:26, á laugardaginn. Hann skoraði fjögur mörk og átti stórleik í vörninni.

Tandri Már er á sinni annarri leiktíð með Skjern sem er frá samnefndum bæ á vesturströnd Jótlands, rétt norðan við Esbjerg. Hann er samningsbundinn liðinu fram á mitt ár 2019. Tandri hefur komið sér vel fyrir í Skjern, 8.000 manna bæ, ásamt konu sinni Stellu Sigurðardóttur, fyrrverandi landsliðskonu, og rúmlega tveggja ára syni þeirra. Stella varð að hætta handknattleiksiðkun fyrir nærri fjórum árum eftir að hafa fengið tvö þung höfuðhögg með skömmu millibili í árslok 2013 og annað í árbyrjun 2014. „Stella hefur náð sér sæmilega vel. Hún er með vinnu og hefur verið að velta fyrir sér að hefja nám. Hún nýtur þess að vera hér úti eins og ég,“ sagði Tandri Már.

Besti vinnustaður Danmerkur

Skjern er afar traust félag með góðan rekstur sem skilað hefur afgangi mörg síðustu ár. Tandri Már segir umhverfið í félaginu vera afar fjölskylduvænt. „Markmið Skjern Håndbold er að félagið verði besti vinnustaður í Danmörku. Að því er unnið hörðum höndum. Það er afar vel hugsað um okkur. Ég get ekki fundið neitt neikvætt sem snýr að félaginu og ég held að það skipti engu máli hvern maður hittir sem hefur verið hjá félaginu, allir bera því vel söguna. Hér stenst allt eins og stafur á bók.“

Skjern varð danskur bikarmeistari á síðustu leiktíð en tapaði fyrir lærisveinum Arons Kristjánssonar í Aalborg Håndbold í úrslitarimmu um meistaratitilinn. Nú um stundir er Skjern í þriðja sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliðinu GOG, sem Tandri og félagar sækja heim í kvöld.

„Við verðum að vinna GOG til þess að eiga möguleika á deildarmeistaratitlinum. Ef við töpum verðum við fjórum stigum á eftir GOG og þá verður vonin um deildarmeistaratitilinn orðin fjarlægari. GOG er sterkt lið um þessar mundir og tapar ekki mörgum leikjum eins og staðan er í dag,“ sagði Tandri Már og undirstrikar að talsvert sé lagt upp úr að vinna deildarmeistaratitilinn í Danmörku vegna aukastiga sem tvö efstu liðin taka mér sér inn í úrslitakeppnina en hún er leikin eftir öðrum fyrirkomulagi en við þekkjum hér heima á Íslandi.

Fróðlegur og lærdómsríkur tími

„Það hefur gengið vonum framar hjá mér í Skjern. Á þessari leiktíð hef ég fengið 45 til 50 mínútur í nánast hverjum leik. Leiktíminn ræðst af því hvernig maður stendur sig. Ég er sáttur enda hefur þessi tími verið afar fróðlegur og lærdómsríkur þar sem ég æfi með toppmönnum og leik hörkuleiki bæði í dönsku deildinni og í riðlakeppni Meistaradeildarinnar,“ segir Tandri Már sem áður lék með Ricoh í Svíþjóð og þar á undan með TM Tönder í dönsku B-deildinni.

Samhliða handboltanum og fjölskyldulífi tók Tandri Már upp í haust þráðinn við háskólanám í viðskiptafræði. „Maður þarf að velta framtíðinni fyrir sér og hvað tekur við þegar ferlinum í boltanum lýkur,“ sagði Tandri Már léttur en hann tók sér frí frá námi á síðasta vetri meðan hann var að ná áttum eftir flutninga frá Stokkhólmi. „Ég er einn þeirra sem fóru í viðskiptafræði vegna þess að ég var óviss um hvaða háskólanám ég átti að leggja fyrir mig.“

Tandri var um skeið með annan fótinn í íslenska landsliðinu en hefur ekki verið inni í myndinni upp á síðkastið. Hann segist ekki velta sér mikið upp úr því hvort hann verði inni í myndinni þegar landsliðið verður valið fyrir EM í Króatíu. „Ég er ekkert of bjartsýnn á að vera í hópnum. Ef svo verður þá er það gulrót. Ég hef gert allt sem að mér snýr. Síðan er það bara spurning hvað landsliðsþjálfarinn gerir,“ sagði Tandri Már Konráðsson, handknattleiksmaður hjá danska úrvalsdeildarliðinu Skjern.