Þann 15. október síðastliðinn kynnti Sjálfstæðisflokkurinn stefnumál sín fyrir þá komandi kosningar. Stefnuskráin gerir ráð fyrir því, að á næstu árum muni ríkið verja um 100 milljörðum króna til innviðauppbyggingar, sem fjármögnuð verði með sérstökum arðgreiðslum úr bönkunum. Fjármagnið yrði nýtt til viðbótar við áður áætlaðar framkvæmdir til styrkingar samgöngum, auk annarra innviða í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Þá ráðgerir flokkurinn að lækka neðra þrep tekjuskatts niður í 35% úr tæpum 37%. Auk þess er lagt til að frítekjumark atvinnutekna verði hækkað í 100 þúsund krónur á mánuði, sem miði að því að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði eldri borgara. Í stefnuskránni kemur einnig fram tillaga flokksins um námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd, 65.000 króna styrk á mánuði til námsmanna í stað námslána, en slíkir styrkir hafa aldrei staðið íslenskum námsmönnum til boða.
Upptaka námsstyrkja í stað námslána á eftir að hafa gífurleg áhrif, bæði á námsval og þróun til að takast á við nýsköpunarþörfina, þar sem allar námsbrautir hafa sama vægi. Og ekki kæmi mér á óvart að þessi breyting myndi valda töluverðum breytingum á heilbrigðisvandamálinu kvíðaröskun, þar sem allir sitja við sama borð. Ég er þess fullviss að atvinnulífið mun taka þessum breytingum með fögnuði, því skortur á iðnaðarmönnum er mikill, þrátt fyrir að hér starfi liðlega 30 þúsund erlendir ríkisborgarar í iðnaði í dag. Hér verður að fara varlega og það er allskostar óvíst að þeirra iðnaðarpappírar standist iðnlögjöfina bæði hvað varðar innihald námsins og faglegar ábyrgðir samkvæmt gildandi iðnaðarlögum.
Ég ætla að segja ykkur lesendur góðir hvernig námið gekk til hjá mér og bróður mínum fyrir nærri 60 árum, hann í vélvirkjun og ég í rennismíði. Þá voru námslánin aðeins fyrir þá sem lokið höfðu stúdentsprófi, þannig að við vorum ekki gjaldgengir til námslána. Við lukum okkar iðnnámi og fórum síðan beint í Vélskólann og lukum þar þriggja ára námi, án þess að fá nokkurt námslán. Hins vegar fengum við fyrirgreiðslu hjá Sparisjóði vélstjóra í formi víxillána. Á sumrum vorum við til sjós og oftast fengum við frí til að fara afleysingartúra um jól og áramót. Síðar meir hrósuðum við happi yfir því að hafa ekki fengið námslánin, því með þessari aðferð söfnuðust ekki upp neinar langtímaskuldir.
Frelsið sem nemendur fá með því að hverfa frá námslánakerfinu og taka upp 65.000 króna styrk á mánuði, jafnt til allra námsbrauta, er algjör bylting sem á eftir að örva alla nýsköpun og þróun, því í æskunni býr bæði sprengikraftur, þor og áræði til að láta hlutina ganga upp. Gamla námslánakerfið var fyrst og fremst búið til fyrir bóknámsbrautir háskólanáms. En að fá samræmt kerfi sem er opið öllum nemendum framhaldsskólanna er algjör bylting. Því með þessu nýja kerfi stendur nemandinn frammi fyrir algjöru frelsi til að velja það nám sem hugur hans stendur til, sama á hvaða sviði það er. Hvort sem það er bóknám til háskólanáms, eða iðnnám eða listnám og þá á hvaða sviði lista sem er, svo nokkuð sé nefnt. Aðalatriðið er að neminn er að velja fyrir sig en ekki fyrir foreldra sína, því þannig virkar frelsið.
En það þarf fleira til ef frelsið á að virka fyrir heila þjóð, það þarf líka siðferði og þar er víða brotinn potturinn hjá stjórnvöldum öllum, bæði hjá ráðuneytum sem og alþingismönnum. Þar ber fyrst að nefna afturvirka hækkun kjararáðs til embættismanna sem mældist í tugum prósenta eða allt að 45% hjá alþingismönnum. Ekki minnist ég neinna athugasemda frá þeim sem nutu þessa gerræðis, nema þeirra sem komu frá forseta vorum Guðna Th Jóhannessyni um að hann teldi þetta ekki réttlátt og að hann hefði aldrei farið fram á neitt þessu líkt. Hér verður að gera bragarbót á, og helst þannig að kjararáðsgjörningurinn verði allur dreginn til baka og kjararáð lagt niður. Það getur aldrei gengið að opinberir aðilar fari alfarið með samninga við opinbera aðila, það verður að vera háð beinu neitunarvaldi almenna vinnumarkaðarins, það er Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Svonefnt SALEK-samkomulag gengur út á það að fullt samkomulag sé um það hvað laun megi hækka um á hverjum tíma. Ég kem ekki auga á aðra leið til að lagfæra þetta en að draga fullkomlega til baka þessa afturvirku hækkun kjararáðs til opinberra embættismanna ella verður hér óðaverðbólga, því heildarrýmið fyrir launahækkanir til allra landsmanna fyrir þetta tímabil er vel innan við 10%. Já, og það er algjörlega óásættanlegt að láta opinbera embættismenn sprengja SALEK-samkomulagið og láta óðaverðbólgu flæða yfir landið einu sinni enn. Nei, ekki helsisánauð eina ferðina enn.
Höfundur er eldri borgari.