Sjóðfélagar í Frjálsa lífeyrissjóðnum geta hvenær sem er ákveðið að greiða iðgjöld í annan sjóð og flutt séreign sína úr sjóðnum.
Frjálsi lífeyrissjóðurinn var í fyrra tilnefndur sem besti lífeyrissjóður í Evrópu af fagtímaritinu IPE og hefur fengið 10 alþjóðlegar viðurkenningar frá árinu 2005, fleiri en nokkur annar lífeyrissjóður á Íslandi. Rekstur sjóðsins hjá Arion banka hefur gengið framúrskarandi vel. Fjöldi sjóðfélaga sem velja að greiða í sjóðinn hefur þrefaldast það sem af er þessari öld og fjöldi þeirra sem eiga séreign eða réttindi í sjóðnum er um 56 þúsund um þessar mundir. Sjóðurinn var 19. stærsti lífeyrissjóður landsins árið 2000 en er nú í 5. sæti og rúmlega 200 milljarðar að stærð. Kostnaðarhlutfall hans hefur farið lækkandi með aukinni stærðarhagkvæmni. Fjöldi sjóða hefur á síðustu árum óskað eftir sameiningu við Frjálsa lífeyrissjóðinn eða samstarfi um rekstur og stýringu á tilteknum hluta séreignarsparnaðar. Sjóðurinn hefur ætíð útvistað rekstri og eignastýringu til fjármálafyrirtækja og aldrei verið með eigin starfsmenn.
Í ljósi þess sem hér hefur verið tíundað vekur það nokkra furðu að Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður skuli taka sér fyrir hendur í Morgunblaðinu 25. þessa mánaðar að upplýsa lesendur um það sem allir hafa vitað, að Arion banki reki Frjálsa lífeyrissjóðinn. Miðað við forsöguna eru fullyrðingar lögmannsins um að sjóðurinn sé í „gíslingu“ bankans í besta falli sérkennilegar.
Bakland í bankanum
Frjálsi lífeyrissjóðurinn var stofnaður árið 1978 að frumkvæði Fjárfestingarfélags Íslands. Fjármálafyrirtækið tók þá áhættu að stofna sjóðinn og lagði í kostnað við m.a. upplýsinga- og bókhaldskerfi, markaðs- og sölumál og starfsmannahald. Umsýsluþóknun er fyrr og nú að verulegum hluta endurgreiðsla á kostnaði sem rekstraraðili leggur í þessa þætti. Sjóðurinn gekk síðan á milli nokkurra fjármálafyrirtækja en hefur verið í rekstri Arion banka frá 2008. Á árinu 2012 endurnýjaði sjóðurinn samstarfssamning við Arion banka í kjölfar úttektar KPMG á mögulegu rekstrarformi sjóðsins til frambúðar. Stjórn sjóðsins komst að þeirri niðurstöðu að hagsmunum sjóðfélaga væri best borgið með því að halda áfram samstarfinu. Frá stofnun sjóðsins hafa sjóðfélagar getað valið að ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi í séreign sem er erfanleg og býður upp á sveigjanlegar útgreiðslur. Enginn lífeyrissjóður býður upp á að ráðstafa eins háu hlutfalli skylduiðgjalds í séreignarsparnað. Sjóðfélagar Frjálsa lífeyrissjóðsins velja að greiða í sjóðinn og líki þeim ekki það bakland sem sjóðurinn hefur í bankanum, þá geta þeir hvenær sem er ákveðið að greiða iðgjöld í annan sjóð og flutt séreign sína úr sjóðnum. Þessi veruleiki veitir bæði stjórn og rekstraraðila mikilvægt aðhald. Í þessu sambandi er ástæða til þess að árétta að Frjálsi lífeyrissjóðurinn kom betur út úr bankahruninu en flestir aðrir lífeyrissjóðir. Um það má lesa í skýrslu úttektarnefndar um starfsemi lífeyrissjóða sem kom út árið 2012.
Stjórnskipan í deiglu
Stjórnskipan sjóðsins hefur verið til umræðu á aðalfundum sem því miður eru að jafnaði alltof fámennir. Stjórnin hefur haft til umfjöllunar breytingar á stjórnskipan og hafa þær verið ræddar á ársfundum sjóðsins undanfarin ár. Áður var það svo að ekki var heimilt að breyta stjórnarfyrirkomulagi eða skipta um rekstraraðila nema með samþykki stjórnar fjármálafyrirtækisins. Lengi vel skipaði rekstraraðili sjóðsins einnig meirihluta en minnihluti var kosinn á aðalfundi. Árið 2008 var skerpt á sjálfstæði sjóðsins með því að fyrrnefnda ákvæðinu var kippt út úr samþykktum og ákveðið að meirihluti stjórnarmanna væri kosinn af sjóðfélögum sjálfum en minnihluti skipaður af rekstraraðila. Varðandi kosnu stjórnarmennina eru tveir kosnir í einu til að tryggja að þekking haldist innan stjórnar við stjórnarskipti. Ekki væri faglega að málum staðið ef meirihluti stjórnar kæmi nýr að stjórn sjóðsins á einu bretti því það tekur langan tíma að byggja upp þekkingu á allri starfsemi lífeyrissjóðsins. Þessi mál eru í deiglu innan Frjálsa lífeyrissjóðsins og þar vegast á kröfur um sem mesta breidd í bakgrunni stjórnarmanna til að forðast einsleitni og þörf á að viðhalda þekkingu og reynslu í stjórninni. Til samanburðar er rétt að nefna að hjá almennum lífeyrissjóðum á samningssviði aðila vinnumarkaðarins hafa sjóðfélagar ekki rétt til að kjósa í stjórnir lífeyrissjóða.
Áhætta og ávöxtun
Árlega gerir Capacent Gallup könnun á viðhorfi sjóðfélaga til lífeyrissjóða sem þeir greiða í. Spurt er meðal annars um viðhorf til þjónustu, upplýsingagjafar, ávöxtunar og trausts á stjórn og stjórnendum. Frjálsi lífeyrissjóðurinn fékk framúrskarandi niðurstöður í öllum lykilþáttum könnunarinnar í ár líkt og síðustu ár á undan. Það er stjórninni mikilvægt að upplifa þetta jákvæða viðhorf og traust til sjóðsins sérstaklega í ljósi þess að sjóðfélagar velja að greiða í sjóðinn en ber ekki skylda til þess. Á þessu ári hafa áætlanir varðandi þá fjárfestingu sjóðsins, sem tengist United Silicon, ekki gengið eftir. Ítarleg grein hefur verið gerð fyrir fjárfestingarferlinu á heimasíðu Frjálsa lífeyrissjóðsins og er engu við það að bæta að svo stöddu. Þetta er að sjálfsögðu áfall fyrir stjórn sjóðsins og sérstaklega ber að harma þau óþægindi sem verksmiðjan hefur valdið íbúum í Reykjanesbæ. Það er hinsvegar misskilningur hjá Hróbjarti Jónatanssyni að lífeyrissjóði sé hægt að reka án áhættu og áfalla eins og berlega kom í ljós í bankahruninu. Það að taka áhættu felur í sér að einstakar fjárfestingar geta tapast. Það sem skiptir máli er að fjárfestingar sjóðsins skili ávöxtun, sem er í samræmi við þá áhættu sem tekin var, þegar horft er yfir þær í heild.Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur skilað góðri ávöxtun á árinu 2017. Nafnávöxtun hinna mismunandi fjárfestingarleiða sjóðsins það sem af er árinu, að teknu tilliti til þess að fjárfesting í United Silicon tapist, er á bilinu 6,3% - 6,8%. Það sem skiptir þó enn meira máli er að ávöxtun til lengri tíma sé góð og hjá sjóðnum er hún 8,9% - 9,2% á sama grunni sl. 15 ár. Sjóðfélagar skoða heildarmyndina en ekki einstaka þætti þegar þeir ákveða að treysta Frjálsa lífeyrissjóðnum fyrir sparnaði sínum.
Höfundur er hæstaréttarlögmaður og sjórnarformaður Frjálsa lífeyrissjóðsins.