Kolbeinn Óttarsson Proppé
Kolbeinn Óttarsson Proppé
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kolbeinn Óttarsson Proppé grípur af miklum drengskap til varna fyrir formann sinn Katrínu Jakobsdóttur.

Kolbeinn Óttarsson Proppé grípur af miklum drengskap til varna fyrir formann sinn Katrínu Jakobsdóttur. Hún á, ef marka má varnarræður Kolbeins, undir högg að sækja á vinstrivængnum þar sem að henni sækja þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata og má ekki á milli sjá hverjir eru óbilgjarnastir.

Það er auðvitað söguleg ósvífni að fólk úr öðrum flokkum veitist að formanni VG, sem á slíku ekki að venjast og er skiljanlega illa brugðið.

Annar stjórnmálamaður er ekki síður ötull í baráttunni fyrir þá sem minna mega sín. Óttarr Proppé fórnaði sér í það verkefni á lokadögunum í embætti heilbrigðisráðherra að eyða einmitt þessum lokadögum í að kanna aðstæður rohingja í Bangladess.

Heilbrigðisráðherra er nú við rannsóknir á þessum aðstæðum og miðar án efa vel og mundi mögulega geta nýtt niðurstöður rannsóknanna ef ekki vildi svo illa til að hann verður sennilega farinn úr embætti áður en hann snýr til baka.

Og þess vegna er talið að lyklaskiptin muni þurfa að fara fram rafrænt, en til allrar blessunar mun, þrátt fyrir þröngan kost rohingja, vera gott netsamband á helstu hótelum í Dakka. Líkur standa því til að lyklaskiptin verði hnökralaus.

Allt stefnir því í farsæla ferð, en eftir stendur þó spurningin um það hvort verðandi heilbrigðisráðherra mun sækja Óttarr í Leifsstöð.