Baksvið
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands veltir því fyrir sér hvort hægt sé að setja til verndar sjúkdómastöðu Íslands almenn skilyrði sem gilda myndu jafnt um innlenda búvöruframleiðslu og innfluttar afurðir. Eða hvort raunhæft sé að taka upp viðræður við Evrópusambandið um breytingar á EES-samningnum í sama tilgangi.
Dómur EFTA-dómstólsins um bann við innflutningstakmörkunum á hráu kjöti og fleiri búvörum og afleiðingar þess fyrir lýðheilsu og búfjárstofna var til umræðu á ráðstefnu sem Landbúnaðarháskóli Íslands stóð fyrir á Hvanneyri síðastliðinn föstudag, Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, var meðal framsögumanna og varpaði þar fram þessum hugmyndum.
Fordæmi í mjólkinni
Í niðurstöðum dómsins kemur fram að þótt heimilt eigi að vera að flytja ógerilsneydda mjólk til landsins megi ekki markaðssetja hana eða selja hér á landi vegna þess að hér er bannað að selja ógerilsneydda mjólk úr innlendri framleiðslu. Í þessu ljósi veltir Sigurður því fyrir sér hvort til séu almenn skilyrði sem beita má og verða þá að gilda um innlenda búvöru jafnt og erlenda.Nánar spurður um þetta segir Sigurður að það gæti falist í auknu gæðaeftirliti með sýnatöku og frekari rannsóknum, til dæmis með því að skima meira eftir sýklalyfjaónæmi og smitefnum en nú er gert. Það sé lykilatriði að þessar kvaðir leggist jafnt á allar afurðir, hvort sem þær séu framleiddar innanlands eða fluttar inn.
Fara til Brussel?
Hann veltir því jafnframt fyrir sér hvort stjórnmálamenn þurfi ekki að meta það hvort Íslendingar geti sætt sig við niðurstöðuna og hvort hún sé réttlát og sanngjörn. „Þessi ákvæði eru í samningum sem hafa verið gerðir. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort við ætlum að sætta okkur við niðurstöðuna eða fara til Evrópusambandsins til að skýra stöðuna hér fyrir því og óska eftir breytingum,“ segir Sigurður.Þótt landbúnaði hafi verið haldið fyrir utan EES-samninginn sem tók gildi í byrjun árs 1994 varð mikil breyting á reglum um viðskipti með búvörur eftir að matvælalöggjöf Evrópusambandsins var innleidd í íslenska löggjöf á árinu 2009. Ísland var þar með orðið hluti af innri markaði EES fyrir matvæli. Löggjöfin var raunar innleidd með vissum undanþágum, til dæmis um bann við innflutningi á fersku kjöti, sem ekki hafa staðist skoðun hjá Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum og er talin þörf á að breyta viðkomandi lögum til þess að Evrópusambandið grípi ekki til mótvægisaðgerða. Allt eins má búast við að þær muni koma fram í viðskiptahindrunum með sjávarafurðir vegna þess að vitað er að það er erfitt fyrir hagsmuni Íslands.
Sigurður segist treysta sér til þess að mæla með að látið verði reyna á viðræður við ESB. „Segja má að þetta [matvælalöggjöf ESB] hafi verið tekið upp til að tryggja frjálst flæði á sjávarafurðum til Evrópu. Það breytir því ekki að við erum með raunverulega og verðmæta sérstöðu og hljótum að þurfa að hugsa um hvernig best er að vernda hana.“