Ingi Þór Steinþórsson
Ingi Þór Steinþórsson
Bandaríkjamaðurinn Everage Lee Richardson rauf 50 stiga múrinn fyrir Gnúpverja í 1. deildinni í körfubolta á sunnudaginn.

Bandaríkjamaðurinn Everage Lee Richardson rauf 50 stiga múrinn fyrir Gnúpverja í 1. deildinni í körfubolta á sunnudaginn. Richardson skoraði 53 stig þegar Gnúpverjar töpuðu fyrir Breiðabliki 85:94 eftir jafnan leik á heimavelli Gnúpverja í Fagralundi í Kópavogi. Frammistaða Richardson var nánast með ólíkindum því í fyrri hálfleik hafði hann skorað 38 stig en alls hafði liðið þá skorað 48.

Richardson hefur látið hendur standa fram úr ermum undanfarið en hann skoraði 51 stig gegn Snæfelli, 45 gegn Fjölni og 47 gegn FSu. Er hann með 39 stig að meðaltali í 9 leikjum.

Lærisveinar Inga Þór Steinþórssonar í Snæfelli eru að sækja í sig veðrið í 1. deildinni og höfðu betur gegn Vestra, 111:94. Skallagrímur situr á toppi deildarinnar með 16 stig, Breiðablik er með 14, Snæfell 12, Vestri, Hamar og Fjölnir 10 stig hvert, Gnúpverjar 4, FSu 2 en Skagamenn reka lestina í deildinni, án stiga eftir átta leiki. kris@mbl.is