Ingvar Jónsson
Ingvar Jónsson
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is „Ég óttaðist það versta til að byrja með og það fyrsta sem ég hugsaði var að nú væri HM í hættu. En sem betur fer slapp ég vel.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Ég óttaðist það versta til að byrja með og það fyrsta sem ég hugsaði var að nú væri HM í hættu. En sem betur fer slapp ég vel. Þetta er bara lítið brot í fibula (minna beinið í fótleggnum), allt heilt í kringum það, og það var frábært að fá fljótlega jákvæðar fréttir um að þetta væri ekki alvarlegra en raun bar vitni,“ sagði Ingvar Jónsson, markvörður norska knattspyrnuliðsins Sandefjord, við Morgunblaðið í gær en hann fótbrotnaði í leik liðsins við Lilleström í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

„Ég var að taka útspark en steig eitthvað vitlaust í vinstri fótinn og hann sat fastur í blautu grasinu en völlurinn var mjög þungur. Það var enginn nálægt mér þegar þetta gerðist. Ef maður lítur á jákvæðu hliðarnar þá er þetta ágætis tímasetning. Það er komið frí þar til í byrjun janúar og ég hef nægan tíma til að jafna mig og komast í gott stand,“ sagði Ingvar sem reiknar með að komast aftur af stað eftir um það bil sex vikur.

Ingvar er einn þeirra fjögurra markvarða sem aðallega hafa verið í hópi íslenska landsliðsins undanfarin misseri og var varamarkvörður á EM í Frakklandi. Hann spilaði sinn 7. landsleik gegn Katar fyrr í þessum mánuði.

Slökuðum of mikið á

Þá var Ingvar að ljúka sínu þriðja tímabili í Noregi og öðru árinu hjá Sandefjord. Hann fór með liðinu upp úr B-deildinni í fyrra og í ár hélt það sæti sínu í úrvalsdeildinni, hafnaði í þrettánda sæti af sextán liðum.

„Ég er að flestu leyti mjög sáttur við tímabilið hjá okkur, nema það var leiðinlegt hvernig það endaði. Við slökuðum of mikið á eftir að við vorum öruggir með að falla ekki. Við vorum stutt frá því að geta endað í hópi tíu efstu liðanna sem var markmiðið en fyrir tímabilið var okkur spáð botnsætinu af öllum fjölmiðlum,“ sagði Ingvar sem lék alla 30 leiki Sandefjord í deildinni og hélt markinu hreinu átta sinnum.

Einn af þeim bestu í deildinni

Sérfræðingur norska vefmiðilsins Nordicbet sagði m.a. í umfjöllun um lið Sandefjord á dögunum: „Íslendingurinn Ingvar Jónsson hefur verið góður og einn af bestu markmönnum deildarinnar. Mér finnst hann hafa siglt undir radarnum hjá mörgum. Óhemjutraustur og á sjaldan slakan leik. Hann er mjög skammt frá Hannesi Halldórssyni sem er aðalmarkvörður íslenska landsliðsins.“

Ingvar fær íslenskan félagsskap eftir áramótin. Emil Pálsson er á leið til Sandefjord frá FH og félagið er líka að reyna að fá til sín Hólmbert Aron Friðjónsson frá Stjörnunni.