Landspítalinn Starfsmenn geta lent í hörðum átökum við sjúklinga.
Landspítalinn Starfsmenn geta lent í hörðum átökum við sjúklinga. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Samkvæmt nýjum starfsemisupplýsingum Landspítalans fyrir októbermánuð hefur skráðum atvikum vegna sjúklinga á spítalanum fjölgað um rúm 13% á milli ára, miðað við fyrstu tíu mánuði þessa árs. Alls voru skráð um 3.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Samkvæmt nýjum starfsemisupplýsingum Landspítalans fyrir októbermánuð hefur skráðum atvikum vegna sjúklinga á spítalanum fjölgað um rúm 13% á milli ára, miðað við fyrstu tíu mánuði þessa árs. Alls voru skráð um 3.300 atvik frá áramótum, borið saman við um 2.900 á sama tíma í fyrra.

Hlutfallslega hefur atvikum fjölgað mest vegna ofbeldis eða átaka sem starfsmenn verða fyrir af hendi sjúklinga. Til loka október sl. höfðu 225 slík atvik verið skráð frá áramótum, borið saman við 148 á sama tíma fyrir ári. Aukningin á milli ára er um 52%.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, segir skráningu atvika vera hluta af gæðastarfi spítalans og að átak hvað það varðar hafi

verið í gangi síðustu misserin. Aukið ofbeldi eða átök við sjúklinga megi fyrst og fremst skýra með aukinni neyslu sjúklinga á hörðum efnum. Slík átök komi oftast upp á bráðamóttöku eða geðdeildunum.

„Þessi fjölgun er auðvitað áhyggjuefni en með því að bæta skráninguna tekst okkur betur að halda utan um þetta og bæta okkar starfsemi,“ segir Anna Sigrún en nokkur dæmi eru þess árlega að starfsmenn spítalans slasist í átökum við sjúklinga eða verði fyrir eignatjóni. Oft geti hegðun þessara sjúklinga verið mjög ógnandi eða snúist upp í hreint og klárt ofbeldi.

Sérstakt viðbragðsteymi starfar á spítalanum þegar svona atvik koma upp og Anna Sigrún segir samstarf við lögregluna jafnframt mjög gott, einkum vegna atvika á bráðamóttöku og geðdeildum.

Atvik á Landspítalanum eru flokkuð eftir eðli þeirra og flest eru tengd atvikum sem rakin eru til umhverfis og/eða aðstæðna. Fyrstu tíu mánuði ársins voru um 960 slík atvik skráð, eða 19% fleiri en í fyrra. Að sögn Önnu Sigrúnar má rekja mörg atvikanna til öldrunardeilda og þar sem vista hefur þurft aldrað fólk sem kemst ekki að á hjúkrunarheimilunum. Hefur fólkið þá verið að detta úr rúmum sínum, rekið sig í eða dottið á göngum eða rýmum spítalans.

Ekki æskilegar aðstæður

„Það er erfitt fyrir eldra fólk að vistast á göngum eða rýmum sem ekki eru beinlínis hugsuð sem legurými. Fólk getur verið illa áttað og því líður illa við að breyta oft um umhverfi. Bið á bráðamóttöku eða dvöl í átta manna stofu getur verið óþægileg þessu fólki. Þetta eru ekki æskilegar aðstæður en við þurfum að skrá öll svona atvik til að átta okkur betur á stöðunni. Hluti af gæðastarfi er að bæta skráninguna, svo hægt sé að taka málin fyrir,“ segir Anna Sigrún ennfremur.