Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Hildigunnur Haraldsdóttir, arkitekt hjá arkitektastofunni Húsi og skipulagi, segir marga hafa sýnt áhuga á nýjum íbúðum á Tryggvagötu 13.
„Íbúðirnar fóru í sölu um helgina, en þegar eru átta fráteknar,“ segir Hildigunnur.
Hún er aðalhönnuður og samræmingarhönnuður byggingarinnar.
Um er að ræða 38 íbúða fjölbýlishús við hlið Borgarbókasafnsins í Tryggvagötu. Íbúðirnar eru á 2. til 6. hæð. Á jarðhæð verður verslun og þjónusta. Við húsið er nýtt torg.
Efsta hæðin er inndregin
Íbúðirnar eru um 55 til 166 fermetrar, þær minnstu stúdíóíbúðir.Sjötta hæðin er inndregin en þar eru fjórar íbúðir. Um helmingur íbúða hefur útsýni til norðurs og suðurs, en aðrar íbúðir snúa til suðurs og eru með borgarútsýni en aðrar til norðurs með útsýni yfir höfnina.
Fram kemur í auglýsingu á fasteignavef mbl.is að íbúðirnar séu vandaðar. Gólf í anddyri og á göngum jarðhæðar er klætt marmara og í anddyri er listaverk eftir Leif Breiðfjörð. Lögð er áhersla á rúmgott og fallegt anddyri til að stuðla að félagslegri samveru íbúa í húsinu. Hægt er að stýra ljósi og hita með rofum eða snjalltæki. Hreinlætistæki eru frá Laufen í Sviss.
Við hönnun er lögð áhersla á sjálfbærni, m.a. með deilibílum.
Framkvæmdir hófust um sumarið 2015. Birtist þá frétt í Morgunblaðinu þar sem sagði að áformað væri að ljúka framkvæmdum ári síðar, eða á miðju ári 2016. Síðan er liðið um eitt og hálft ár. Hildigunnur segir ýmislegt hafa orðið til tafar. Til dæmis hafi kvöð um kjallara orðið til tafar. Þar verða geymslur, hjóla- og vagnageymsla og tíu bílastæði, þar af nokkur deilibílastæði. Þá segir Hildigunnur skort á iðnaðarmönnum hafa sett strik í reikninginn. „Við höfum glímt við sömu manneklu og aðrir í þessu samfélagi,“ segir hún.
Keyptu lóðina á 360 milljónir
Greint var frá því í fjölmiðlum sumarið 2014 að arkitektastofan Hús og skipulag hefði átt hæsta tilboðið í lóðina Tryggvagötu 13. Það hljóðaði upp á 360 milljónir. Fjölskylda Hildigunnar og þrjár aðrar fjölskyldur keyptu lóðina saman með það í huga að búa í húsinu. Nú þegar eru átta íbúðir á 4., 5. og 6. hæð fráteknar. Hildigunnur segir miðað við að hægt verði að flytja í íbúðirnar í febrúar.Tryggvagata er að taka miklum breytingum. Gegnt Tryggvagötu 13, á Tryggvagötu 18, er rekið íbúðahótel í fjölbýlishúsi sem lokið var við eftir efnahagshrunið. Á Tryggvagötu 10-14 er verið að byggja hótel og veitingastaði á svonefndum Naustareit. Vestan við hann, á Norðurstíg, er áformað að fjölga íbúðum. Loks má nefna að við austurenda Tryggvagötu er uppsteypu stórhýsa á Hafnartorgi að ljúka.