[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Útgjöld til rannsókna og þróunar lækkuðu hér á landi á milli ára sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í 2,08% árið 2016 úr 2,17%, samkvæmt gögnum frá Hagstofu.

Baksvið

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Útgjöld til rannsókna og þróunar lækkuðu hér á landi á milli ára sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í 2,08% árið 2016 úr 2,17%, samkvæmt gögnum frá Hagstofu. Nýútgefnar bráðabirgðatölur Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, leiða í ljós sambærilegar sveiflur á milli ára í Skandinavíu þar sem umrædd útgjöld lækka.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir að hlutfallið sé lægra en í flestum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Svo dæmi sé tekið var hlutfallið 3,3% í Svíþjóð, 2,9% í Danmörk og 2,8% í Bandaríkjunum samkvæmt nýjustu gögnum þaðan.

„Íslensk fyrirtæki sem stunda mikið rannsóknar- og þróunarstarf eru í auknum mæli að fjárfesta í þessum hluta starfsemi sinnar erlendis frekar en hér á landi,“ segir Ingólfur. „Að hluta er ástæðan fyrir þessari ákvörðun stjórnenda fyrirtækjanna sú að hér á landi er starfsumhverfi til rannsókna og þróunar lakara, þ.e. endurgreiðslur eru lægri en víðast í nálægum ríkjum. Aðrar ástæður eru óstöðugt rekstrarumhverfi og sveiflur á gengi krónunnar.“

Undirbyggir hagvöxt

„Stóran hluta hagvaxtar í vestrænum löndum má rekja til rannsókna og nýsköpunar. Með þeim er verið að fjárfesta í hagvexti framtíðarinnar til hagsbóta fyrir samfélagið. Af þeim sökum hafa flestöll lönd búið til einhvers konar hvatakerfi sem ýtir undir fjárfestingu fyrirtækja í rannsóknum og þróun. Ísland hefur verið eftirbátur annarra ríkja hvað þetta varðar. Til að tryggja viðunandi umfang rannsókna og þróunar í íslensku efnahagslífi er mikilvægt að endurgreiðsluhlutfall rannsóknar- og þróunarstarfs verði hækkað. Einnig þarf að afnema þök á kostnaðarviðmið við rannsóknir og þróun til að hvetja til slíkra verkefna enda hefur það nú þegar borið árangur, þó við stöndum öðrum löndum að baki í þessum efnum,“ segir Ingólfur.

Heildarútgjöld til rannsókna og þróunar á árinu 2016 voru 50,9 milljarðar króna. Af þeim voru útgjöld fyrirtækja 32,0 milljarðar, háskólastofnana 16,3 milljarðar og annarra opinberra stofnana 2,5 milljarðar króna. Útgjöld til rannsókna og þróunar jukust á milli ára um 5%. „Sá vöxtur var talsvert undir vexti landsframleiðslu,“ segir Ingólfur.

Lækkun téðra útgjalda milli ára sem hlutfall af landsframleiðslu má rekja að mestu til fyrirtækja. „Útgjöld þeirra til rannsókna og þróunar sem hlutfall af landsframleiðslu lækkuðu á milli ára úr 1,4% í 1,3%,“ segir hann.

Yfir meðaltali ESB
» Ísland er 0,05 prósentustigum yfir meðaltali Evrópusambandsins sem er 2,03% sé litið til útgjalda til rannsókna og þróunar sem hlutfalls af vergri landsframleiðslu.
» Útgjöld til rannsókna og þróunar jukust á milli ára um 5%.
» Stóran hluta hagvaxtar í vestrænum löndum má rekja til rannsókna og nýsköpunar.
» Ísland er eftirbátur þegar litið er til hvatakerfa sem ýta undir fjárfestingu fyrirtækja í rannsóknum og þróun. Ennfremur er rekstrarumhverfið óstöðugt.