Snjómokstur Á Akureyri snjóaði mikið svo skóflur komu í góðar þarfir.
Snjómokstur Á Akureyri snjóaði mikið svo skóflur komu í góðar þarfir. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Mögulega þarf að fara allt aftur í febrúarmánuð árið 1999 til að finna jafnlangan og leiðinlegan kafla með norðanhríðum og gekk yfir landið frá miðvikudegi síðustu viku og fram á helgina.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mögulega þarf að fara allt aftur í febrúarmánuð árið 1999 til að finna jafnlangan og leiðinlegan kafla með norðanhríðum og gekk yfir landið frá miðvikudegi síðustu viku og fram á helgina. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Hann rifjar upp að frá kvöldi 18. febrúar 1999 fram á aðfararnótt 22. febrúar – fyrir tæpum nítján árum – hafi geisað stórhríð um norðanvert landið og verið því sem næst samfelld í þrjá til fjóra sólarhringa.

Nærgöngul lægð fyrir norðan

„Aðdragandinn að hríðarbylnum var reyndar nokkur annar en nú. Þá var nærgöngul lægð fyrir norðan land, en nú einkenndist bylurinn frekar af háum þrýstingi. Og margt gekk á. Til dæmis kyngdi niður miklum snjó svo sem á Akureyri, hús voru rýmd á Siglufirði, í Bolungarvík. Snjóflóð féll úr Tindastóli og rafmagnsleysi var í Skagafirði. Vegir voru lokaðir meira og minna í nokkra daga líkt og nú,“ segir Einar. Í þessu hreti féll snjóflóð í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu sem lenti á dráttarvél og lést ökumaður hennar.

Einar Sveinbjörnsson heldur því einnig til haga að í janúar 2004 hafi gert mjög hart N- og NV-veður sem staðið hafi í allt að þrjá daga og setti niður mjög mikinn snjó. Þá hafi fallið snjóflóð á bæinn Bakka í Ólafsfirði þar sem einn maður lést. „Þar var djúp lægð að verki og er varla samanburðarhæft við nýliðinn hríðarkafla, sem einkenndist kannski frekar af miklum skafrenningi og ófærð frekar en beinlínis aftaka snjókomu,“ segir Einar. Hann bendir á að algengt hafi verið á þessum árum að byggðir á snjóflóðasvæðum hafi verið rýmdar í kjölfar snjókomu. Þar hafi fólki verið flóðin í Súðavík og á Flateyri árið 1995 í fersku minni, en á árunum eftir það hafi verið byggðir snjóflóðavarnagarðar á þekktum hættustöðum víða um land. Fyrir vikið þurfi í dag sjaldnar að rýma hús af þessum ástæðum.

„Veðrið í síðustu viku var í raun tvískipt, frá miðjum mánudegi og á þriðjudag blindhríð norðvestantil, heldur skaplegra síðan á miðvikudag. Þar á eftir tók við hríðarbylur með miklum skafrenningi á Norður- og Austurlandi í tvo til tvo og hálfan sólarhring,“ segir Einar.