Víkverji varð fyrir því óláni á dögunum að öryggisbelti bilaði í bílnum hans, fyrir bílstjórasætið. Bifvélavirki Víkverja hefur úrskurðað beltið ónýtt og fyrir vikið hófst leit að nýju belti.

Víkverji varð fyrir því óláni á dögunum að öryggisbelti bilaði í bílnum hans, fyrir bílstjórasætið. Bifvélavirki Víkverja hefur úrskurðað beltið ónýtt og fyrir vikið hófst leit að nýju belti. Hjá umboðinu fengust þau svör að ekki væri til nýtt belti og panta þyrfti það frá útlöndum. Það tæki alla jafna um þrjár vikur, þar sem öryggisbelti mega samkvæmt reglum ekki ferðast í háloftunum, vegna einhverra efna sem í þeim eru. Þau sigla því sinn sjó hingað upp í fásinnið. Plan B var að heyra hljóðið í bílapartasölum en það hefur enn ekki borið árangur. Það er ekki gott hlutskipti að vera bílbeltislaus í þrjár vikur, allra síst á þessum tíma árs, þegar hálka er gjarnan til staðar og allra veðra von.

Satt best að segja þykir Víkverja með nokkrum ólíkindum að þessi staða geti komið upp í því háhraðasamfélagi sem við búum í. En lengi má beltin reyna.

Það er býsna langt síðan Víkverji hefur komist í tæri við jólasvein, enda börn hans öll vaxin úr grasi, en það gerðist þó á jólahlaðborði um liðna helgi. Sveinki birtist þá býsna óvænt og var hress. Að vanda. Sneri samkundunni upp í söng og almenna gleði, jafnvel þótt meðalaldur viðstaddra væri örugglega 50 ár plús. Kunni Sveinki vel að meta hlaðborðið sem svignaði undan krásunum en viðurkenndi þó að hann hlakkaði meira til að komast heim í kvöldmat enda ætlaði móðir hans, Grýla, að elda grjónagraut af sinni alkunnu snilld.

Minnti þetta Víkverja á sögu sem móðir hans, ekki Grýla, rifjar gjarnan upp á mannamótum um þetta leyti árs en hún fjallar um það að Víkverji hafi einu sinni hafnað jólasteikinni hjá ömmu sinni (blessuð sé minning hennar!) og beðið þess í stað um hafragraut. Hann var á þessum tíma allmörgum árum yngri en jólasveinninn í jólahlaðborðinu. Svo því sé til haga haldið.