[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helga Ragnheiður Stefánsdóttir fæddist í Hafnarfirði 28.11. 1947, ólst þar upp, hefur átt þar heima alla tíð, sem og börn hennar og systkini: „Ég er „Gaflari“ í húð og hár, eins og nokkur getur orðið. En ég kvarta ekki undan því.

Helga Ragnheiður Stefánsdóttir fæddist í Hafnarfirði 28.11. 1947, ólst þar upp, hefur átt þar heima alla tíð, sem og börn hennar og systkini: „Ég er „Gaflari“ í húð og hár, eins og nokkur getur orðið. En ég kvarta ekki undan því. Það var gott að alast upp í Hafnarfirðinum og þar er gott að búa, hvað sem Kópavogsbúar kunna að segja við því.

Á sumrin dvöldum við svo mikið í sumarhúsi pabba og mömmu í Sléttuhlíðinni. Þaðan á ég margar góðar minningar.“

Á unglingsárunum passaði Helga börn, var í fiskvinnslu, var kaupakona í Gröf og vann skrifstofustörf. Hún var í grunnskóla í Kató skóla St. Jósepssystra sem var í grennd við æskuheimilið, fór síðan í Flensborg, stundaði nám við Verslunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1966.

Helga var síðan við nám og störf í Danmörku og Þýskalandi, lauk prófum frá Ferðamálaskóla Íslands og prófi í markaðsfræði við Stjórntækniskóla Íslands, auk þess sem hún sótti ýmis námskeið, s.s. í barnabókmenntum, auglýsingasálfræði og erlendum tungumálum.

Helga varð flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands 1968 og sinnti síðan flugfreyjustarfinu hjá Flugleiðum og Icelandair til 1984: „Þetta var afar skemmtilegt starf sem átti eftir að breytast mikið í tímans rás. Fyrsta þota Íslendinga, Gullfaxi, kom til landsins, lenti á Reykjavíkurflugvelli, sumarið 1967 og var afhent Flugfélagi Íslands. Ég var fyrst töluvert í innanlandsflugi og flugi til Grænlands og Færeyja en auk þess til hinna hefðbundnu áætlunarstaða í Evrópu og Bandaríkjunum.

Nú skipta íslenskar þotur tugum og fljúga til sífellt fleiri áætlunarstaða. Breytingarnar hafa verið gríðarlega miklar á þessum tíma.“

Helga var varabæjarfulltrúi og formaður ferðamálanefndar Hafnarfjarðar, sat m.a. í menningarmálanefnd, fræðsluráði og hafnarstjórn. Hún hefur verið nokkuð virk í félagsmálum, var m.a. stofnfélagi í Lionsklúbbnum Kaldá, sat í sóknarnefnd og systrafélagi Víðistaðakirkju, stjórn Vorboða og er félagi í Svölum, félagi flugfreyja auk ýmissa annarra skemmtilegra hópa.

Helga stofnaði ásamt tveimur öðrum konum Félag hafnfirskra hjólreiðakvenna, en þær fóru vikulega í hjóla- og kaffihúsaspjall.

„Ég er afskaplega lánsöm og þakklát fyrir að geta verið virk amma 12 barnabarna við pössun, skóla- og æfingaskutl. Það veitir mér svo sannarlega gleði og tilgang að koma þar við sögu.

Helga leikur golf af kappi en golf er reyndar sameiginlegt áhugamál allrar fjölskyldunnar og kemur gjarnan við sögu þegar ferðast er til útlanda. En það er líka vinsælt að hittast í sumarhúsi Helgu, með golfvöll í nágrenninu. Hún spilar golf alla mánudaga á sumrin og gjarnan hina daga vikunnar þegar tími vinnst til.

„Á þessum tímamótum er ég afskaplega þakklát fyrir að hafa nóg að gera og geta notið hvers dags með stóra hópnum mínum og öðru skemmtilegu samferðafólki á lífsleiðinni.“

Fjölskylda

Eiginmaður Helgu er Gunnar Hjaltalín, f. 8.6. 1946, löggiltur enduskoðandi. Foreldrar hans voru Hákon Hjaltalín Jónsson, f. 17.8. 1910, d. 7.6. 1977, málarameistari í Reykjavík, og Elín Fanney Ingólfsdóttir, f. 15.9. 1912, d. 20.1. 2000, húsfreyja.

Börn Helgu og Gunnars eru 1) Ragnheiður Hulda Hjaltalín, f. 23.5. 1970, viðskiptafræðingur en maður hennar er Guðni Níels Aðalsteinsson hagfræðingur og börn þeirra Andrea Helga f. 1998, Nína María, f. 2001, og Davíð Frank, f. 2008; 2) Jón Hákon Hjaltalín, f. 8.2. 1976, viðskiptafræðingur en kona hans er Þórhildur Jónsdóttir viðskiptafræðingur og börn þeirra Styrmir, f. 2006, Þorbjörg Sara, f. 2010, og Hákon Emil, f. 2013; 3) Stefán Hjaltlín, f. 2.8. 2077, starfsmaður hjá Isal en kona hans er Elín Hrönn Káradóttir bókari og börn þeirra Gunnar, f. 2008, Lilja Guðrún, f. 2010, og Elín Ósk f. 2015; 4) Haukur Ingi Hjaltalín, f. 30.5 1983, löggiltur endurskoðandi en kona hans er Klara Jónsdótir viðskiptafræðingur og börn þeirra Tómas, f. 2012, og Helga Lóa, f. 2017, og Davíð Heimir Hjaltalín, f. 15.12. 1087, MSc í endurskoðun en kona hans er Sandra Dís innanhússarkitekt og sonur þeirra: Heimir Elí f. 2015.

Systkini Helgu Ragnheiðar eru 1) Jón Gunnar, f. 26.6. 1931, viðskiptafræðingur og fyrrverandi bæjarstjóri í Grindavík; 2) Þórður, f. 18.11 1932, d. 28.12. 2006, framkvæmdastjóri; 3) Soffía, f. 1.12. 1936, fyrrverandi starfsmaður Sýslumannsins í Hafnarfirði; 4) Sigurður Hallur, f. 29.4 1940, fyrrverandi héraðsdómari, og 5) Halldór Ingimar, f. 29.1. 1949, vélstjóri.

Foreldrar Helgu Ragnheiðar voru hjónin Stefán Jónsson, f. 15.3.1909, d. 23.9. 2001, forstjóri Vélsmiðju Hafnarfjarðar, og forseti bæjarstjórnar, og Ragnheiður Hulda Þórðardóttir, f. 30.3. 1910, d. 11.3. 2007, húsfreyja.