Angela Merkel, Þýskalandskanslari og leiðtogi kristilegra demókrata, CDU, varaði við því í gær að margvíslegar áskoranir biðu Evrópusambandsins á næstu mánuðum og að því yrði að mynda ríkisstjórn í Þýskalandi fljótlega, á sama tíma og hún lýsti yfir vilja sínum til að mynda stjórn með Sósíaldemókrataflokknum, SPD.
Martin Schulz, leiðtogi SPD, sagði að flokkur sinn væri tilbúinn til þess að hefja viðræður, en hann hafði áður hafnað því að SPD myndi sitja í ríkisstjórn. Sagði Schulz að flokksþing SPD myndi fara yfir alla möguleikana í næstu viku. Ólíklegt er að viðræður muni því hefjast fyrr en í janúar.