Heilbrigð skynsemi virðist mega sín lítils þegar ferðamenn komast út í náttúruna. Um helgina birtust myndir af tugum ferðamanna á ísilögðu Jökulsárlóni og nývígðum brúðhjónum og ljósmyndara að auki. Lögregla var kölluð til, en ferðamennirnir sinntu ekki tilmælum hennar fyrr en þau höfðu verið margítrekuð, eins og fram kom á mbl.is.
Jökulsárlón er vissulega fallegt, en þar leynast einnig hættur og illa getur farið fyrir þeim, sem fellur í jökulkalt vatnið og lendir jafnvel á milli jaka.
Ljóst er að á stöðum á borð við Jökulsárlón er nauðsynlegt að merkingar séu rækilegar og varað sé við hættum. Það dugar þó ekki alltaf til. Rækilega er varað við hættum Reynisfjöru og þó fara ferðamenn sér að voða. Í upphafi árs dugði ekki einu sinni lögregluborði eftir banaslys í fjörunni til að halda ferðamönnum í skefjum.
Því er stundum haldið fram að náttúran sé orðin svo framandi borgarbarninu að allt skynbragð á hættur hennar sé horfið. Ekki er reyndar hægt að ætlast til þess að fólk átti sig til dæmis á hættum hverasvæða þar sem jarðvegur getur gefið eftir fyrirvaralaust, en í flestum tilfellum ætti heilbrigð skynsemi að duga til að vara fólk við.
Vitaskuld þarf að vara við hættum við fjölförnustu náttúruperlurnar. Það er hins vegar ekki hægt að reka niður skilti við hverja gjótu og klett og myndi þá fljótt draga úr aðdráttarafli náttúrunnar. Nauðsynlegt er hins vegar að helstu ferðastaðir séu vel merktir og þess sé gætt að brýna fyrir ferðamönnum að náttúran sé hættuleg þótt fögur sé og óreyndum sé skynsamlegast að leita ráða áður en haldið er af stað.