Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Frans páfi fundaði í stutta stund í gær með Min Aung Hlaing, yfirmanni herráðsins í Búrma, en páfinn er þar í opinberri heimsókn. Er þetta í fyrsta sinn sem páfi heimsækir landið. Hafnaði Hlaing því að trúarhópum væri mismunað í landinu, jafnvel þó að háværar ásakanir hafi komið fram um að Búrmaher hafi staðið fyrir ofsóknum gegn Róhingjum, íslömskum minnihlutahópi.
Fyrir helgi bárust fregnir þess efnis að um 620.000 manns af þjóðflokki róhingja hefðu flúið heimili sín í Rakhine-héraði í Búrma frá 25. ágúst síðastliðnum og farið yfir landamærin til Bangladess.
Eftir fund þeirra, sem stóð yfir í fimmtán mínútur, sagði talsmaður páfagarðs að Frans hefði rætt um hina miklu ábyrgð sem hvíldi á yfirvöldum í Búrma á þessu mikla breytingaskeiði, en herforingjastjórn fór með öll völd í landinu í um hálfa öld þar til í fyrra, að kosningar voru loksins haldnar.
Þá tók við völdum borgaraleg ríkisstjórn undir forystu Aung San Suu Kyi, friðarverðlaunahafa Nóbels, sem gat sér gott orð fyrir friðsamlega mótspyrnu við yfirráðum hersins. Engu að síður hefur herinn enn talsverð ítök við stjórn landsins.
Sakaðir um hreinsanir
Bæði Sameinuðu þjóðirnar og Bandaríkjastjórn hafa sagt að meðferð hersins á róhingjum falli undir skilgreininguna á þjóðernishreinsunum. Hlaing hafnaði þeim ásökunum hins vegar á fundi sínum með páfa og sagði að herinn gerði ekkert umfram það sem nauðsyn þætti til þess að halda friðinn í Búrma og vernda öryggi landsmanna.Ofsóknirnar eru hins vegar í brennipunkti meðan á heimsókn páfa stendur, en fram kom í erlendum miðlum í gær að honum hefði verið ráðlagt að nefna ekki róhingja á nafn meðan á heimsókn hans stæði. Gert er ráð fyrir að Frans muni hitta Aung San Suu Kyi í dag. Páfinn mun yfirgefa Búrma á fimmtudaginn.
Frans hefur hins vegar áður vakið athygli á ástandinu í landinu, og hefur hann meðal annars sagt að róhingjar séu „bræður sínir og systur“ og kallað eftir aðgerðum til þess að létta á neyð þeirra.
Þrátt fyrir það var páfa vel tekið þegar hann lenti í Yangon í gær. Fjöldi fólks beið Frans á flugvellinum, þar á meðal nunnur í hvítum kuflum, sem veifuðu fánum honum til heiðurs. Einungis búa um 700.000 kaþólikkar í Búrma, eða sem nemur rúmu prósenti af þeirri 51 milljón manns sem þar býr.