Uppboðshús Christie's mun nú í desember bjóða upp eintak af hinni mikilvægu bók Charles Darwin um uppruna tegundanna sem höfundurinn hefur skrifað allskyns athugasemdir í. Má þar sjá hvernig Darwin hefur verið að slípa kenningu sína í ljósi allra nýjustu uppgötvana á þeim tíma. Í The Guardian er greint frá uppboðinu og telja sérfræðingar að bókin kunni að seljast á 300 - 500.000 pund, eða allt að 69 milljónir króna.
Bókina, sem er þriðja útgáfa verksins, sendi Charles Darwin til þýsks þýðanda síns en hefur áður breytt talsverðu í textanum með skrifum út á spássíur og milli lína, til að þýska útgáfan væri sem réttist. Síðan hefur bókin, allt til þessa dags, verið í fjölskyldu þýðandans. Fræðimenn hafa vitað af breytingum sem Darwin sendi þýðandanum en hafa ekki haft aðgang að þeim fyrr en nú.