Davíð Hjálmar Haraldsson skrifaði í Leirinn í gær: Þótt spangóli Vaskur að vonum og veitist að börnum og konum og bílana elti með urri og gelti er varla til hundur í honum.

Davíð Hjálmar Haraldsson skrifaði í Leirinn í gær:

Þótt spangóli Vaskur að vonum

og veitist að börnum og konum

og bílana elti

með urri og gelti

er varla til hundur í honum.

En í fyrradag varð „vetrartíð“ honum að yrkisefni, – og ekki er lýsingin fögur!:

Kvelur tíðin, köld er hríðin,

kalnir ýtar moka snjó.

Fótur tognar, bakið bognar,

bilar öxl og rifnar þjó.

Það hefur legið vel á Pétri Stefánssyni þegar hann orti:

Mín er skáldabrautin bein,

bjart er alltaf hjá mér.

Stundum rennur ein og ein

ágæt vísa frá mér.

Þessi staka gaf Helga Zimsen tóninn:

Sónargull frá sagnagrein

sem af færibandi

boðar: Péturs braut er hrein

brageyrað í standi.

Helgi bætti síðan við: „En svona af því að ég er farinn af stað, þá ætlaði ég að glápa á imbakassann í gær, gullfiskabúrið við hliðina fangaði þó fljótt athyglina enda ágætis raunveruleikasjónvarp þar á ferð. Áður en ég vissi af var ég kominn í heimskspekilegar vangaveltur :)

Oft að fiskum grant ég gái,

glerbúr sitt þeir passa.

Ætli þeirra andi nái

utar þessum kassa?

Líða þeir í ljúfu næði.

Líst þeim ekkert skrítið

það að að þeim flæði fæði

fyrirhafnarlítið?

Glaðir innan glersins sveima

gullfiskarnir sáttir.

Alla daga húka heima,

huldar eru gáttir.

Óræð djúpin ekki kafa,

aldrei þreyta rænu.

Lítið einnig lesið hafa

um litla gula hænu.

Spurull fylgi sporðataki

spræks ef kenni vottinn.

Yfir þeim ég ætíð vaki

enda þeirra Drottinn.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is