Magnús Heimir Jónasson
mhj@mbl.is
Lögfræðistofan BBA Legal sendi að beiðni Eignarhaldsfélagsins Dalsins ehf., sem er meðal annars í eigu Róberts Wessman, tilkynningu í lok ágúst til fjölmiðlanefndar um breytt eignarhald á fjölmiðlafyrirtækinu Pressunni. Hið breytta eignarhald reyndist ekki á rökum reist og þurfti að leiðrétta hina breyttu skráningu eignarhaldsins.
Fjölmiðlanefnd barst erindi 22. ágúst frá BBA Legal þar sem tilkynnt var um breytingu á eignarhaldi á Pressunni ehf. en í hluthafaskránni í póstinum hefur Eignarhaldsfélagið Dalurinn ehf. aukið hlut sinn um ríflega 20 prósentur, úr 68,27% í 88,38% og hlutur Kringluturnsins ehf., sem er m.a. í eigu Björns Inga Hrafnssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Pressunar, rýrnað úr 23,26% í 0,65%.
Engin breyting á eignarhaldi
Lögmaður BBA legal, undirritar tilkynninguna „fyrir hönd Pressunar ehf.“ og var skjalið stimplað af fjölmiðlanefnd hinn 28. ágúst. Leiddi það til þess að stofnunin breytti skráningu um eignarhald Pressunar á vef sínum. Í kjölfarið birtist frétt í Markaðnum, viðskiptariti Fréttablaðsins, þar sem segir í fyrirsögn að „Róbert Wessman og meðfjárfestar eignast 88% hlut í DV“. Þar var meðal annars rætt við Halldór Kristmannsson, einn eigenda Dalsins ehf. Á þeim tímapunkti hafði engin hlutafjáraukning eða sala á hlutabréfum átt sér stað. Eignarhald á Pressunni ehf. hafði ekki breyst í raun, nema á vef fjölmiðlanefndar. Hinn 30. ágúst sendu aðrir hluthafar Pressunnar erindi til fjölmiðlanefndar þar sem óskað var eftir skýringu á hinni röngu skráningu og hver hefði breytt henni en hvorki stjórnendur né stjórnarmenn félagsins könnuðust við að slíkar breytingar hefðu átt sér stað. Í samskiptum BBA Legal við fjölmiðlanefnd, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, segir að um mistök hafi verið að ræða en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru engin viðskipti með hlutabréf félagsins sem gáfu tilefni til þess að tilkynna um breytt eignarhald Pressunnar. Í tilkynningu BBA Legal um breytt eignarhald segir að „framangreindir hluthafar samþykkja þessa tilkynningu og staðfesta efni hennar“, og er þar m.a. vitnað til Halldórs Kristmannssonar, Róberts Wessman, Björns Inga Hrafnssonar, Arnar Ægissonar o.fl.Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, lögfræðingur hjá fjölmiðlanefnd, segir að stofnunin hafi, í kjölfar þess að forsvarsmenn Pressunnar höfðu samband, sett sig í samband við lögmannsstofuna og að þá hafi komið í ljós að upplýsingarnar sem stofnuninni bárust hafi ekki reynst réttar. Hafi breytingarnar á vefsíðu stofnunarinnar verið afturkallaðar í kjölfarið. Hún segir afar erfitt annað en að taka trúanlegar þær tilkynningar sem berist stofnuninni.
Tímalína
» 22. ágúst tilkynnir BBA Legal fjölmiðlanefnd um breytt eignarhald þar sem Dalurinn ehf. eykur hlut sinn um 20%.
» 28. ágúst stimplar fjölmiðlanefnd skjalið.
» 30. ágúst er greint frá breyttu eignarhaldi í fjölmiðlum.
» Sama dag senda stjórnendur tilkynningu um rangt eignarhald.