Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Breiðafjarðarferjan Baldur kann að verða frá vegna bilunar alveg til áramóta, samkvæmt tilkynningu á heimasíðu Sæferða, útgerðar ferjunnar, í gær. Þar kemur fram að nauðsynlegt hafi reynst að taka vélina úr Baldri og flytja hana til viðgerðar á verkstæði Framtaks í Garðabæ. Sæferðir ætla að senda út tilkynningu um leið og nánari tímasetning um hvenær viðgerð lýkur liggur fyrir. Félagið biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.
Alvarleg bilun í aðalvél
Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, sagði að alvarleg bilun hafi orðið í aðalvél Baldurs. Ferjan er með eina aðalvél. Hana þarf að taka upp frá grunni. Sérfræðingar hafa ekki enn séð hvað olli biluninni. „Það þarf að taka vélina úr skipinu og renna sveifarásinn. Svo verður hún sett saman aftur á verkstæðisgólfinu og farið með hana vestur í Stykkishólm,“ sagði Gunnlaugur. Hann taldi að vélin með öllu tilheyrandi vægi um 18-20 tonn. Það er því mikil aðgerð að taka hana úr skipinu og setja hana aftur niður. Vélin er af MAN Alpha gerð og hægt að fá alla varahluti með skömmum fyrirvara, að sögn Gunnlaugs. Tryggingafélag skipsins er að skoða tjónið og fylgist með því að viðgerðin uppfylli allar kröfur.
Áhersla á að laga Baldur
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, benti á það í Morgunblaðinu í gær að Baldur væri næstum 40 ára gamalt skip og að þau fyrir vestan vildu fá nýrra skip til að annast siglingar yfir Breiðafjörð. Ferjan gegndi mikilvægu hlutverki fyrir samgöngur við Vestfirði og Breiðafjarðarsvæðið.Gunnlaugur sagði að það væri verulega stór ákvörðun fyrir lítið félag eins og Sæferðir að yngja upp skipið.
„Það eru ekki nema þrjú ár síðan þetta skip kom. Fyrri eigendur keyptu skipið og það var í eigu Sæferða þegar Eimskip keypti félagið,“ sagði Gunnlaugur. Hann sagði að gera þyrfti við Baldur hvað sem síðar yrði gert. „Það er okkar verkefni hvernig við getum þjónustað þetta sem best og það mun kom að því að skipta þarf um skip. Við erum fyrst og fremst að vinna að því nú að laga þetta skip.“
Aukin þjónusta á vegunum
Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar að þjónusta hefði verið aukin á leiðinni Patreksfjörður – Dalsmynni, sem er við vegamót Hringvegar og Vesturlandsvegar, á meðan Baldur siglir ekki. Þjónustan stendur til klukkan 20.00 alla daga nema laugardaga. Þjónusta var áður veitt til klukkan 17.30. Auk lengingar þjónustutímans hafa hálkuvarnir verið auknar og einnig eftirlit. Helstu farartálmar á leiðinni eru Klettsháls, Ódrjúgsháls, Hjallaháls, Svínadalur og Brattabrekka. Fylgst er sérstaklega vel með færð á þeim stöðum.Reynt hefur verið að tryggja að flutningabílar komist leiðar sinnar. Það hefur gengið ágætlega fyrir utan óveðurskaflann í síðustu viku. Dragist það lengi að Baldur komist aftur í gagnið þarf að skoða það sérstaklega, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.