Björn Bergmann Sigurðarson
Björn Bergmann Sigurðarson
Farsælu keppnistímabili á knattspyrnuvellinum er lokið hjá Skagamanninum Birni Bergmanni Sigurðarsyni. Hann var einn fjögurra sem tilnefndir voru í kjöri besta knattspyrnumanns Noregs sem fram fór í gærkvöld.

Farsælu keppnistímabili á knattspyrnuvellinum er lokið hjá Skagamanninum Birni Bergmanni Sigurðarsyni. Hann var einn fjögurra sem tilnefndir voru í kjöri besta knattspyrnumanns Noregs sem fram fór í gærkvöld. Þar sigraði Tore Reginiussen, leikmaður Rosenborg.

Björn varð efstur allra leikmanna deildarinnar í einkunnagjöf tölfræðisíðunnar WhoScored.com. Hann varð annar í einkunnagjöf norska blaðsins Verdens Gang og er í liði ársins í Noregi hjá netmiðlinum Nettavisen vegna frammistöðu sinnar í framlínu Molde.

Björn lauk tímabilinu með því að skora bæði mörk liðsins í 2:2 jafntefli gegn Sarpsborg í lokaumferð úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn. Hann endaði sem þriðji markahæsti leikmaðurinn með 16 mörk.

Björn þótti fyrir nokkrum árum vera einn alskæðasti sóknarmaðurinn í Noregi en söðlaði þá um og var í herbúðum Wolves um tíma. Hann virðist nú aftur vera kominn á svipaðan stall í norska fótboltanum. Björn, sem er 26 ára gamall, vann sig auk þess inn í A-landsliðið á árinu. Skoraði hann í sigurleiknum gegn Kósóvo í mars.