Athugið Áskrifendur varaðir við.
Athugið Áskrifendur varaðir við. — Morgunblaðið/Anna Lilja
Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.is Síminn hefur hannað rafræna vörn gegn ólöglegri deilingu á nýjum þætti um Stellu Blómkvist úr sjónvarpsþjónustu sinni. Með vörninni má sjá með rekjanlegri merkingu frá hvaða áskrifanda þættinum var deilt.

Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

Síminn hefur hannað rafræna vörn gegn ólöglegri deilingu á nýjum þætti um Stellu Blómkvist úr sjónvarpsþjónustu sinni. Með vörninni má sjá með rekjanlegri merkingu frá hvaða áskrifanda þættinum var deilt. Þessi þjófavörn er íslensk hönnun og ekki vitað til þess að sambærileg tækni hafi áður verið nýtt til að vernda höfundarvarið efni.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við framleiðum íslenskt efni sem er staflað inn á þjónustuna. Svona þættir kosta hundruð milljóna króna í framleiðslu og við erum að reyna að verja okkur fyrir ólöglegum deilingum á efninu á deilisíðum. Nú eru liðnir þrír dagar og það er enn ekki búið að deila þáttunum inni á deildu.net, þannig að við erum bjartsýn,“ sagði Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri afþreyingarmiðla og sölu Símans, í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Auðvitað er kannski erfitt að vera að fara í mál við sína eigin viðskiptavini út af deilingum og sönnunarbyrði er erfið í svona málum, en merkingin á fyrst og fremst að hafa fælingarmátt. Við fengum ráðgjöf hjá Persónuvernd og við erum að reyna að kynna viðskiptavinunum þetta til að þeir viti af þessu og að það yrði hægt að rekja þetta til þeirra,“ heldur Magnús áfram.

„Þetta var bara hugvit við að leysa vandamál sem við stóðum frammi fyrir og óvenju auðvelt fyrir okkur, því við erum að reka lokað kerfi og erum ekki á mörgum dreifileiðum, þannig að við þurfum bara að merkja þetta á einn máta,“ sagði Magnús sem vildi ekkert segja um það hvort tæknin yrði þróuð og seld áfram.