— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is „Þetta er búið að vera leiðindaástand en við ráðum einfaldlega ekkert við þessar aðstæður.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Þetta er búið að vera leiðindaástand en við ráðum einfaldlega ekkert við þessar aðstæður. Þetta er auðvitað ekki boðlegt, sjósundið verður ekki aðeins fyrir áhrifum heldur einnig siglingar og fjöruferðir,“ segir Óttar Hrafnkelsson, forstöðumaður Ylstrandarinnar í Nauthólsvík, en Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sendi í gær frá sér viðvörun þar sem mælt var gegn sjósundi í Nauthólsvík vegna mögulegrar saurgerlamengunar frá dælustöðinni í Faxaskjóli. Gilti viðvörunin um gærdaginn og daginn í dag, þriðjudag.

Starfsmenn Veitna luku viðgerðum í dælustöðinni í gær, en þær höfðu þá staðið yfir í viku. Á þeim tíma tók Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sýni á völdum stöðum í nágrenni dælustöðvarinnar. Niðurstöður sýna, sem tekin voru sl. föstudag, bárust í gær og sýndu þær hækkun á gerlamagni í nágrenninu, m.a. á baðstaðnum í Nauthólsvík.

„Aðstæður við sýnatöku þann 24. nóvember voru óhagstæðar veðurfarslega, m.a. mikið upprót sjávar og mikið af fugli á sýnatökustöðum. Ekki er hægt að staðfesta orsök tilfallandi mengunar í Nauthólsvík þennan dag,“ segir m.a. í viðvörun heilbrigðiseftirlitsins frá í gær. Var því hvorki mælt með sjósundi í gær né í dag, þó að aðstæður væru ágætar, lygnt og bjart. Taka átti fleiri sýni í gær og niðurstöður ættu að liggja fyrir síðar í vikunni.

Að sögn Óttars hefur eitthvað dregið úr aðsókn í sjósundið vegna bilana í dælustöðinni. Bendir hann á að eimbaðið og heiti potturinn standi gestum áfram til boða en að jafnaði skrá sig um 1.500 manns í dagbók Ylstrandarinnar í hverjum mánuði.

Óttar segir þá sem þess óska geta fengið vetrarpassa sína endurgreidda. „Ef fólk hefur ekki getað nýtt kortið sitt þá er það ekkert mál.“