Þorsteinn Kragh fæddist í Reykjavík 9. maí 1961. Hann lést af slysförum á heimili sínu í Reykjavík 18. nóvember 2017.
Foreldrar hans voru Lína Kragh, verslunareigandi og tannsmiður, f. 26. ágúst 1938, d. 16. október 1992, og Hillary Femia.
Þorsteinn var annar í röð fjögurra systkina, elstur er Sveinn Kragh, f. 14. janúar 1959, síðan kom Þorsteinn, þá Kjartan Guðbrandsson, f. 11. október 1966, og svo Eydís Gréta Guðbrandsdóttir, f. 7. febrúar 1970. Þau systkini voru sammæðra, faðir Kjartans og Grétu er Guðbrandur Kjartansson læknir, f. 22. september 1941.
Þorsteinn Kragh og Guðrún Jónína Ragnarsdóttir, f. 18. október 1962, eignuðust dóttur, Kristínu Kragh, f. 27. mars 1986, eiginmaður Petter Stuberg, f. 7. ágúst 1984. Börn þeirra eru Jóhannes Kragh Stuberg, f. 25. júní 2007, og Kristian Kragh Stuberg, f. 2. júní 2011.
Þorsteinn ólst upp í Reykjavík, á Húsavík, Raufarhöfn, Hvammstanga og Akranesi. Eftir gagnfræðaskóla vann Þorsteinn margvísleg störf, stundaði sjómennsku, fór á vertíð, vann við sauðburð og sveitastörf og sá um eftirlit og fóðrun dýra á Sædýrasafni Íslands. Þorsteinn stundaði kokkanám og fljótlega eftir námið stofnaði hann fyrirtæki, Lotion Promotion, og í framhaldi af því varð hann umboðsmaður margra hljómlistarmanna. Þorsteinn flutti til landsins fjöldann allan af listamönnum, meðal annars var hann umboðsmaður GCD og Bubba Morthens um tíð, KK, Jet Black Joe, Richard Scobie og Heru ásamt verkefnum fyrir hljómsveitina Blur.
Þorsteinn Kragh var skipuleggjandi ásamt Gulla Briem að undirbúningi tónleikanna 46664 Mandela Foundation.
Það verkefni endaði í heimildarmynd, Meeting Mr. Mandela, og sá Þorsteinn um skipulagningu og fararstjórn sem endaði á fundi hópsins við Nelson Mandela í Suður-Afríku.
Af stærri verkefnum hans hér heima má nefna tónleika hljómsveitanna Ash, Pulp og Blur, tónleika tenóranna José Carreras í Laugardalshöll og Placido Domingo í Eigilshöll, Richards Clayderman í Laugardalsöll og skipulagningu á útihátíðinni Uxi 1995. Þar mættu meðal annars listamenn eins og Björk og The Prodigy.
Eins flutti Þorsteinn inn einn frægasta hestahvíslara heims, Monty Roberts, sem troðfyllti reiðhöll Víðidals 2006.
Þorsteinn hélt áfram að vinna með Monty eftir Íslandsför og setti upp sýningar um allan heim.
Útför Þorsteins Kragh verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 28. nóvember 2017, klukkan 15.
Elsku Denni, hvernig kveð ég þig í hinsta sinn? Við vorum ekki í neinu sambandi þín síðustu ár. Ég hefði samt aldrei trúað því að við myndum ekki hittast aftur í þessu lífi. Elsku bróðir, ég vona innilega að trúin okkar fari rétt með því þá veit ég að þú ert kominn til mömmu sem hefur tekið á móti þér með opnum örmum og endalausu knúsi.
Elsku Denni, takk fyrir allar góðu minningarnar, þær eru dýrmætar og ylja um hjartarætur .
Inn á sviðið sporin stígurðu eitt og eitt
efalaust sérðu eitthvað þó ég sjái ekkineitt.
Með höndina á gítar sem gefur engin hljóð
gatan drukkið hefur í sig öll þín vöku ljóð.
Þú komst við í víti, það hef ég heyrt
á hraða sem fáir getað hafa keyrt.
Gítar þinn treystir á þína fimu fingur
þeir falla bláu tónarnir meðan sálinsyngur.
Langir eru dagarnir sem dunið hafa á
dofinn líkt og nóttin særður hvarfstu frá.
Það snerist allt um drauma og dreypa víni á
dansa svo inn í myrkrið með hjartað fullt af þrá.
Nýja tilveru þráðir þú, ný og betri ár
að nýtt líf gæti hjálpað þér að lækna öll þín sár.
Öngvum hefur dugað að flýja sjálfan sig
sennilega veistu, líkt gildir um þig.
Gömul þula segir trúin flytji fjöll
að fiskimannsins hjarta sé stærra en konungshöll.
Um dópið vitum báðir, það býður engin svör
það blekkir aðeins tónana og skilur eftir ör.
(Bubbi Morthens)
Þín systir
Gréta.
Vegur Þorsteins Kragh bróður míns, vinar míns og kennara með svo margt í þessu lífi var efni í bók eða heila bíómynd. Kannski frekar heila þáttaseríu því sögur eru svo margar ótrúlegar og afrekin líka.
Það handrit yrði á sama tíma mjög fyndið og verklega ævintýralegt eins og það yrði sorglegt og stundum erfitt.
Æskan átti ekki beint þátt í að móta neitt gæfuspor okkar systkina og sú glíma sem þar átti sér stað varð á endanum sú gríma sem hann bar með sér til lokadags.
Það voru tímar í okkar uppeldi þar sem við sáum svolítið mikið um okkur sjálf.
Þar stóð Denni sperrtur og alltaf til taks og leiddi mig áfram ef eitthvað bjátaði á, af honum lærði ég margt, margt gott og eitthvað slæmt eða réttara sagt eitthvað sem átti ekki að gera samkvæmt samfélagi en við gerðum það nú samt. Er það ekki bara þannig að það eru engar rangar ákvarðanir eða réttar? Við lærum bara af því sem við gerum eða ekki? Og ef við erum ekki að skaða aðra þá getur maður bara gert ansi margt þótt samfélagið samþykki það ekki.
Denni var einstakur herramaður, stórglæsilegur og vafði fólki á örskotsstundu utan um fingur sér. Hann var alltaf í toppformi og snyrtilegur.
Hann kenndi mér að slást og keyra bíl 12 ára, stela bensíni af löggubílum og ferðast um heiminn án þess að plana neitt hvar sofið væri né hvað borðað yrði þann daginn.
Denni hafði x-factor, bilaða orku og hæfileika sem fæstum eru gefnir.
Denni átti stóran þátt í að virkja þá orku sem í mér býr ennþá í dag og aldrei langt undan þegar ég var að keppa.
Hann var fjallagarpur og spólaði einn upp ókleif fjöll þegar hann ákvað svo.
Fyrir mér var Denni ódauðlegur, það virtist ekki vera neitt sem hann gat ekki.
Það þurfti lítið til að gleðja hann, góð bók og hann sáttur.
Hann var ekki kirkjumaður en mjög trúaður andans maður sem séð hefur meira en flestir á sínum andlegu ferðalögum.
Denni var gull og gersemi á sama tíma og hann gat breyst í óargadýr sem var þrjóskara en ég.
Sú þrjóska færði hann nær því dökka afli sem var erfitt að beisla.
Hluti af þessu lífsafli dó þegar hann fór í fangelsi.
Þetta frjálsa óbeislaða afl, sem var búið að ferðast um allan heim rúmlega tvítugt, var skyndilega fast innan veggja Litla-Hrauns sem seint verður talinn góður staður.
Denni var vinur minn, ekki alltaf sammála en hann var mér ómetanlegur bróðir.
Styrkur manna getur virkilega hamlað því ferli sem fylgir uppgjöf og sátt.
Sá styrkur hamlaði Denna í þau skipti sem almættið rétti honum tækifæri í þá átt sem hefði komið honum nær sáttinni.
Denni var bara of góður og það er eins og sú góðmennska hafi merkt skömm fyrir það að hafa lent í fangelsi. Ég þekki bara marga verri menn sem hafa ekki verið þar.
Það er erfitt að kveðja bæði móður og bróður á svipaðan hátt. Það er ekkert nema lífslexía sem ég og aðrir getum lært af.
Ég á samt mikið af góðum minningum sem lifa.
Það sárasta sem hann kenndi mér er það sem situr núna eftir í hjarta mínu.
Spurningin af hverju? Því verður ekki breytt og veginn veljum við sjálf.
Kjartan Guðbrandsson. mbl.is/minningar
Denni, sem var þremur árum eldri en ég, var því minn verndarengill og treystu foreldrar mínir honum fyrir mér, þótt leiksvæðið hafi nú ekki verið byggt leikvöllum á þessum tíma.
Fyrir utan hefðbundnu leikina sem farið var í, eins og indíána- og kúrekaleiki, eina krónu, fótbolta, sippó og snjókast og að renna sér á sleða, var verið að flækjast um nágrennið: Rafstöðin, vararafstöðin og sandgryfjur þar sem skilin voru eftir gömul bílhræ og ýmislegt rusl, Elliðaárnar, klak fyrir laxa, hænsnahús og geymsla fyrir stór kefli undan rafmagnsköplum. Þetta voru leiksvæði okkar. Eins þótti okkur alltaf gaman að leika okkur í sátunum á Ártúni á sumrin, þótt það hafi verið bannað. Einnig man ég þegar við Denni vorum leiddir með bundið fyrir augun af eldri strákum niður kaðalstiga niður í göng sem herinn hafði grafið þegar Ísland var hersetið.
Ég var oft heima hjá Denna í Sólvangi, þar sem hann bjó hjá móður sinni Línu og fósturpabba, Guðbrandi, og systkinum, Svenna, Kjartani og Grétu. Mamma hans var með verkstæði í húsinu, en hún var tannsmiður og það var oft spennandi að sjá hvað hún var að gera. Á efri hæðinni bjuggu síðan afi hans og amma, Sigríður og Sveinn Kragh. Ég man einnig eftir síamskettinum þeirra sem var kallaður Bláskjár. Fjölskyldan flutti síðan úr Rafstöðvarhverfinu og saknaði ég alltaf Denna.
Við hittumst oft síðar og alltaf var Denni eitthvað að bralla. Hann vann líklegast á fyrsta pizzastað landsins, fór til Ameríku í nám og eldaði fyrir forseta Íslands, hann bjó um tíma í Hollandi og víðar. Við vorum líka í júdó saman og þá voru bæði Kjartan og Guðbrandur með okkur.
Ég sá Denna síðast nú í sumar og töluðum við heillengi saman. Ég sagði honum að ég hefði nýverið séð mynd af okkur frá því hann var sex eða sjö ára gamall. Hann bað mig um að senda sér myndina því fáar myndir væru til af honum frá þeim tíma og hann langaði til að sýna dóttur sinni og barnabörnum myndina.
Þakka þér, Denni minn, fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Ég votta fjölskyldu þinni og systkinum mína innilegustu samúð.
Magnús Bjarni Jónsson.
Ég sá þig fyrst fyrir mörgum árum og ákvað þá að ég skyldi einn dag fá að kynnast þér, sú varð raunin, heppin ég.
Mig langar að kveðja þig með nokkrum orðum. Fallegur varstu, það er ekki spurning, ekki allra en einhvern veginn komst ég inn hjá þér, takk fyrir að hleypa mér inn.
Ég rakst á þig síðast fyrir nokkrum vikum og smellti á þig kossi á kinn, bæði vorum við á hlaupum. Ég hefði viljað spjalla meira en við hittumst einn góðan sólardag og tökum spjall og förum yfir þetta allt.
Eigðu góða stund á nýjum stað, minn kæri.
Þín vinkona
Kolbrún Ólafsdóttir.
Denni, eins og hann var kallaður, leit út eins og Hollívúddstjarna þegar ég kynntist honum, fríður, karlmannlegur, með brún augu, dökkur á hörund, með þykkt svart liðað hár, samsvaraði sér vel, stæltur á skrokkinn, lágvaxinn og kvikur í hreyfingum og með bros sem opnaði nánast allar dyr.
Við hittumst á Eskifirði 1982 og urðum vinir, ungir menn sem vissum hvorugur að fíkniefnaguðinn hafði merkt sér okkur báða. Denni var hamhleypa til verka, þvílíkur kraftur í einum manni og dugnaður. Ég lærði seinna sögu hans, hann reyndist hafa lítið barn þurft að ganga í gegnum hluti sem ekkert barn á að þurfa að ganga í gegnum. Sú reynsla markaði hann fyrir lífstíð eins og hún gerir við okkur sem verðum fyrir áföllum sem börn. Meðan við erum ung getum við kastað frá okkur ófreskjum sem sækja að okkur, en með árunum mæðumst við og vörnin dugar ekki til.
Frá 1982 til 1999 vorum við nánast í daglegu sambandi. Hann varð umboðsmaður minn og stóð sig vel, ávallt vel klæddur með milljóndollarabros sem opnaði honum heim hinna frægu og ríku. Óperustjörnur komu á hans vegum hingað til lands sem og breskar stórhljómsveitir. Hann var í jarðarför Pavarotti ásamt öllum helstu stjörnum Evrópu og lífið virtist brosa við honum. En svo var það hin hliðin sem fæstir vissu um. Hann notaði fíkniefni og var dæmdur fyrir að flytja þau inn. Hann sagðist alltaf vera saklaus og hélt því fram við mig eins og aðra. Við töluðum seinast saman 2009. Hann reiddist mér af því ég sagðist ekki trúa honum.
Denni var gull af manni, greiðvikinn vinur vina sinna, en það fór ekki framhjá neinum sem til hans þekkti að hann glímdi við drauga. Það var sárt að sjá hann í fangelsi. Þegar ég kvaddi hann jólin 2008 á Litla-Hrauni voru augu hans svo full af skelfingu að það mun aldrei líða mér úr minni. Það brotnaði eitthvað í honum í fangelsinu og hann varð aldrei samur eftir það.
En ég á margar dásamlegar minningar um hann. Ein er frá því þegar við fórum til Afríku og enduðum í þorpi þar sem jónur voru gerðar úr breskum dagblöðum og stærðin á þeim slík að við tókum bara hvor sinn smókinn sem dugði okkur til Spánar. Við leigðum okkur hús á Kanarí þar sem ég samdi lögin á Sögur af landi og hann sá um næturlífið. Hann var listakokkur og við elduðum nánast á hverju kvöldi. Það var góður tími. Hann elskaði tónlist og það var alltaf tónlist í kringum hann. Hann elskaði konur og konur elskuðu hann. Hann var góður við elstu börnin mín og þau voru elsk að honum.
Innsæi Denna sýndi sig þegar ég varð edrú 1996. Þá sagði hann: Nú get ég ekki lengur unnið með þér. En ég er búinn að finna mann sem er edrú eins og þú og hann er tilbúinn til að vinna með þér. Svo kynnti hann mig fyrir fóstbróður mínum og besta vini, Palla, sem er umboðsmaður minn enn í dag.
Við komum og við förum og nú er Denni farinn. En hann lifir í mér og mun gera það meðan ég lifi.
Ég sendi aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Bubbi Morthens.
Hann var dulur og með mikla brynju sem var erfitt að komast inn fyrir, en mér tókst það oft og ég held að hann hafi sótt í vinskap minn vegna þess að ég var hrein og bein og kannski smá mamma í mér í hans garð. Mér tókst að láta hann sjá það fallega sem sem í honum bjó – a.m.k. einstaka sinnum tókst mér það. Við hin áttum auðvelt með að sjá góðmennsku hans, hún fór ekki fram hjá neinum. „Æi Íris, plís hættu að vera svona jákvæð og mikil Pollýanna,“ sagði Denni oft og hló þegar ég var að benda honum á björtu hliðarnar í lífinu þegar það var rökkur. Dóttir hans og barnabörn voru hans stolt og yndi og hann ljómaði allur þegar hann talaði um þau og þá sá ég mjúka manninn sem mér þótti svo vænt um. Við sem þekktum hann höfum öll mismunandi útgáfur af honum og ég hef mína sem er maður sem þráði að vera elskaður og að elska. Hann var fluggáfaður og vissi allt um heimsmálin og söguna kunni hann vel. Honum leið best á Spáni og hafði hann planað að skapa sér heimili þar til frambúðar og gerast bóndi í Andalúsíu. Denni talaði um hversu æðislegt það yrði að vera með nokkra hesta og hænur í bakgarðinum á eldgömlu sveitasetri sem hann myndi gera upp. Hann átti marga vini á þessum slóðum og leið eins og heima hjá sér þegar hann dvaldi þar.
Denni átti stóra sigra í lífinu sem ekki má gleyma og hann var rausnarlegur og hugsaði mjög vel um þá sem skiptu hann máli. Líf hans var ævintýri líkast, eða eins og veglegt grímuball þar sem Denni bar best gerðu og veglegustu grímuna. Viku fyrir andlát Denna töluðum við saman og ég lofaði að baka sörur handa honum og færa honum fljótlega eins og ég gerði alltaf fyrir hann á þessum tíma árs. Ekki grunaði mig að örlög hans væru þessi. Elsku Denni minn, nú er grímuballinu lokið og þú ert vonandi með móður þinni sem þú elskaðir svo heitt. Ég þakka fyrir vinskap okkar, traust og hlýju og megi allar góðar vættir vaka yfir þér og þínum. Þín vinkona,
Íris Björk Jónsdóttir.
Leiðir okkar Denna lágu fyrst saman 1993. Þó samskipti okkar hafi ekki verið mikil í þá daga mun ég seint gleyma því þegar hann ásamt bróður sínum Svenna og blóðföður þeirra bræðra, sem þá var staddur á Íslandi, bankaði upp á klukkan sex á aðfangadagskvöld þegar heimilisfólkið var við það að setjast til borðs og gæða sér á jólasteikinni. Þetta var stutt heimsókn en ógleymanleg sökum tímasetningarinnar.
Fyrir um fjórum árum lágu leiðir okkar aftur saman þegar hann birtist á kaffihúsi þar sem ég sat og vann í tölvunni, við áttum þá langt og gott spjall og upp frá því þróuðust sterk vináttubönd okkar á milli sem stundum minntu á systkinasamband, stundum var hann stóri bróðir og stundum var hann litli bróðir.
Við Denni gengum mikið saman, hittumst oft eða töluðum saman í síma og voru samskipti okkar stöðug þrátt fyrir að hann verði töluverðu af tíma sínum erlendis.
Denni var hvers manns hugljúfi, hann gat verið með eindæmum sjarmerandi og skemmtilegur, hann var ákveðinn, duglegur, greiðvikinn og traustur vinur sem var yfirleitt indæll í alla staði, ef illa lá á honum átti hann það til að hafa alla hluti svo mikið á hornum sér að maður gat eiginlega ekki annað en hlegið.
Hann var mannvinur og mikill dýravinur og ósjaldan sem hann varð að koma við og sækja hund vinar síns áður en við fórum í göngu upp í hesthús, en hann hafði mikið dálæti á hestum.
Það er með trega og söknuði en einnig væntumþykju og þakklæti fyrir góða vináttu sem ég kveð Denna vin minn og vil ég votta aðstandendum hans og vinum mína dýpstu samúð.
Bless, vinur minn, bless.
Loks er dagsins önn á enda
úti birtan dvín.
Byrgðu fyrir blökkum skugga
björtu augun þín.
Ég skal þerra tár þíns trega,
tendra falinn eld,
svo við getum saman vinur
syrgt og glaðst í kveld.
Lífið hefur hendur kaldar,
hjartaljúfur minn.
Allir bera sorg í sefa,
sárin blæða inn.
Tárin fall heit í hljóði,
heimur ei þau sér.
Sofna vinur, svefnljóð
meðan syng ég yfir þér
Þreyttir hvílast, þögla nóttin
þaggar dagsins kvein.
Felur brátt í faðmi sínum
fagureygðan svein.
Eins og hljóður engill friðar
yfir jörðu fer.
Sof þú væran, vinur,
ég skal vaka yfir þér.
(Kristján frá Djúpalæk)
Rakel.
Mikið er erfitt að tala um þig í þátíð. Á meðan ég pára niður þessar línur, horfi ég á símann, vonast til að þú hringir, og segir mér að þetta sé allt misskilningur. Vitrir hafa sagt um dauðann, að þar sé önnur leið til að vaka yfir ástvinum okkar sem eru jarðbundnir. Ég trúi því. Ég veit að þú vakir yfir henni Kristínu, dóttur þinni, sem var hin mesta blessun og stolt í lífi þínu.
Elsku Denni minn. Dagarnir eru tómlegir án þín.
Þín,
Þórdís (Dísa).
Djúp og varanleg vinátta
er dýrmætari
en veraldlegar viðurkenningar,
og allt heimsins gull og silfur.
Henni þurfa ekki endilega alltaf
að fylgja svo mörg orð
heldur gagnkvæmt traust
og raunveruleg umhyggja.
Kærleikur,
sem ekki yfirgefur.
(Sigurbjörn Þorkelsson)
Okkar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.
Megi Guð og englarnir gefa ykkur styrk á þessum erfiða tíma.
Hjartans þakkir fyrir allt, elsku Denni okkar. Hvíl i friði.
Margrét Sigurðardóttir og Ríkey Garðarsdóttir.