Andri Yrkill Valsson
yrkill@mbl.is
„Þetta er afskaplega svekkjandi,“ sagði Craig Pedersen, landsliðsþjálfari í körfuknattleik, eftir 77:74-tap fyrir Búlgaríu í undankeppni HM í Laugardalshöll í gærkvöldi.
„Við spiluðum vel fyrstu 36 mínúturnar en þeir náðu taktinum síðustu fjórar mínúturnar á meðan við lentum í vandræðum að ná góðum skotum. Eins og í leiknum gegn Tékkum þá nýttu þeir líkamlegan styrk sinn gegn okkur sem opnaði fyrir skotin. Þeir náðu mun fleiri skotum að körfunni en við og það er erfitt að vinna leik í þeirri stöðu.“
Tryggvi Snær Hlinason átti góða innkomu og sýndi hvað hann getur gefið liðinu með hæð sinni. Hann spilaði engu að síður nánast ekkert undir lokin þegar allt var undir.
„Okkur fannst við vera í vandræðum þegar hann var með í lokin. Þeir náðu að spila framhjá honum og við ákváðum að stilla upp liði sem gæti auðveldlega skipt um stöður. Við erum vanir því að spila þannig og það hefur gengið vel. Tryggvi stóð sig mjög vel, en það var of auðvelt að komast framhjá einn gegn einum. Þeir náðu of mörgum skotum í kjölfarið og við ákváðum að breyta. Ég vildi að ég gæti fengið tækifæri til að prófa eitthvað annað,“ sagði Pedersen.