Kristín Ómarsdóttir „Heimurinn í verkum Kristínar er hennar einnar, og enginn annar skrifar neitt í líkingu við texta hennar,“ skrifar rýnir.
Kristín Ómarsdóttir „Heimurinn í verkum Kristínar er hennar einnar, og enginn annar skrifar neitt í líkingu við texta hennar,“ skrifar rýnir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristínu Ómarsdóttur. JPV útgáfa, 2017. Kilja, 95 bls.

Næstsíðasta lína ljóðsins „fingurbjargir“ er einskonar játning ljóðmælanda og lýsir jafnframt vel hreint makalausu orða- og hugmyndaflæðinu í nýrri ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur, Kóngulær í sýningargluggum . Þar segir ljóðmælandinn: „mér tekst ekki að þagna, þau ráðast á mig orðin og umkringja“. Í næstu línu eftir þessa játningu, þar sem orðunum er kennt um orðaflauminn, að þau hreinlega herji á ljóðmælandann með þessum afleiðingum, þá hleypur hann strax aftur útundan sér, inní einskonar absúrdisma sem einkennir allt verkið og lokar ljóðinu með spurningu: „má bjóða þér að deita egg –“

Kristín er eitt fremsta skáld sinnar kynslóðar og hefur sent frá sér margar ljóðabækur og skáldsögur, auk þess að semja leikrit. Hún verður sífellt öflugri skáldsagnahöfundur og þykir rýni hennar síðasta skáldsaga, Flækingurinn (2015), vera ein af markverðustu bókum sem hafa komið hér út síðustu árin.

Heimurinn í verkum Kristínar er hennar einnar, og enginn annar skrifar neitt í líkingu við texta hennar. Texta sem getur verið svo undur viðkvæmnislegur og fyndinn í senn, óræður en þó kraftmikill, byggist iðulega á afar persónulegum táknheimi og er gjarnan mótaður með verkfærum sem kenna má við absúrdisma; á það ekki síst við um leikritin og ljóðin. Og mögulega hefur Kristín ekki gengið lengra í þá átt en einmitt með þessari bók, Kóngulær í sýningargluggum , með afar athyglisverðum hætti.

Rétt er að taka fram að þetta er ekki aðgengilegur eða auðskilinn texti – líklega þvert á móti. Hann getur verið erfiður og ekki er víst að allir finni að honum lykla. Bókin hefur fylgt mér víða á þvælingi frá hausti og inn í vetur, og hef ég notið þess að lesa hana á ólíkum stöðum. Líklega opnaðist hún mér hvað best í hraðlest á ferð norður eftir Rínardalnum í Þýskalandi, þá fannst mér ég skilja nokkuð vel hvað skáldið væri að fara – en þegar ég las bókina næst, og þá heima hjá mér, upplifði ég ljóðin á allt annan hátt. Svona er þetta göldróttur texti.

Í bókinni eru 56 ljóð í fimm köflum. Og tónninn er sleginn strax í því fyrsta, „kóngulóarsöng“, sem hefst svona: „í minnisdjúpu völundarhúsi ofan á gröf kóngulóa sem frömdu / sjálfsmorð á leið minni hingað syng ég – // fánar hanga úr loftinu, eitraður þvottur, þreyttir peningaseðlar / bananar fyrir krabbameinssjúka; speglar bráðna // ég faldi mig, taldi upp að tíu: ekkert fannst / ég svaf á gaddavír og mig dreymdi fagurgala og fugla: ekkert fannst...“

Draumar og martraðir eru hér endurtekið efni, og sýnilega drifkraftur textans og nánast taumlauss – en þó vel mótaðs – flæðisins. Í upphafi ljóðsins „lífið er draumur“ er einmitt samhljóðandi tileinkun í Calderón de la Barca, og líf ljóðanna er einmitt eins og draumflæði, allt í graut, mótað af orðkynngi og frumlegum tengingum og myndum. Og grimmustu ljóðin eru líklega martraðir, eins og sést í einu með því heiti og hefst svona: „í landinu hafa íbúarnir ekki efni á fingrum / klipptir af við fæðingu með viðhöfn / kaffi og kökur á eftir, safnið urðað / krosssaumuð mynd á púða: skurðgrafa ofan á fingrafjalli“. Fimmta og síðasta erindi „martraðar“ birtir enn eina mótsögnina, syngjandi krakkar með samansaumaðar varir:

krakkarnir þræða varirnar saman með nál og tvinna og syngja saman í

draumkór

svitaperlur kórstjórnandans leika

nóturnar

lófaklappið líkist fossi

f o s s s s s s s

Ljóðin eru mislöng og flæðandi en stundum leikið með hrynjandi og ekki síst með endurtekningum. Sum eru grimm en önnur blíð og einkennast af ákveðinni munúð, með kossum og sleikjum, jafnvel munnvatni sem frjóvgar tungur og ástarsafa sem smyr fingur. Þá má benda á orð sem birtast endurtekið sem persónuleg tákn skáldsins, eins og kóngulærnar sem vísað er í í titilinum og glerbrjóst en þau sjást í nokkrum ljóðanna.

Ljóðin í þessari bók Kristínar eru á vissan hátt galopin í heillandi og áhugaverðu flæðinu, um leið og lesandinn getur farið allt í kringum þau en ekki komist inn í naglfestan merkingarheim og verður að giska á hvað er verið að fara. En það er hluti af galdrinum, absúrd eða súrrealískum, hvaða orð sem við notum, í ljóðheimi skáldsins. Og klístraðir kóngulóarvefir á vel hannaðri kápu kallast vel á við ljóðin.

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson